Ársskýrsla Mógilsár 2001 rétt ófædd
Viðamikil ársskýrsla er nú að líta dagsins ljós um þessar mundir, undir styrkri ritstjórn Ólafs Eggertssonar. Þar koma fram allar upplýsingar (nema þær persónulegustu) um starfsfólk Mógilsár, svo sem um verksvið, verkefni, birt ritverk, fyrirlestra, ferðir og fundi innanlands og erlendis á liðnu ári. Skýrslan verður birt á prenti sem ?Rit Mógilsár? en verður einnig aðgengilegt netverjum sem ?.pdf?-skjal á ?www.skogur.is?.
Mógilsá: útibú úr norrænu öndvegissetri?
Tveir sérfræðinga Mógilsár (Bjarni Diðrik Sigurðsson og Ólafur Eggertsson) taka þátt í hvor sinni umsókn til Norrænu ráðherranefndarinnar um stofnun s.k. ?norrænna öndvegissetra? (e. ?Nordic Centre of Excellence?). Hvor umsókn um sig hljóðar upp á samtals kr. 100 milljónir, til fjögurra ára (2002-2007), en þeirri fjárupphæð verður að sjálfsögðu dreift meðal margra samstarfsaðila hvers verkefnis á Norðurlöndunum ef umsóknirnar hljóta náð fyrir augum ráðherranefndarinnar. Umsókn Bjarna er á sviði kolefnishringrásar í skógum og tengist verkefninu ?Skógvist?. Umsókn Ólafs er á sviði ísaldarjarðfræði og tengist rannsóknum á veðurfarsbreytingum síðustu 10.000 ára.
Ræktun sumarblóma á Mógilsá?
Eins og fram kemur annars staðar í Innskógafréttum (?Viðarmiðlun í vanda?), stendur til að leigja stóra gróðurhúsið á Mógilsá til þriggja mánaða, frá lokum apríl fram í júlí. Hér er á ferðinni framleiðandi sumarblóma sem tilbúinn er að greiða góða leigu fyrir þessa aðstöðu. Því miður hefur þessi sértekjuöflun Mógilsár í för með sér að starfsemi Viðarmiðlunarinnar flyst, tímabundið, að hluta inn í skemmu og að hluta út undir bert loft. En við spáum sólríku sumri og nægilegum fjölda góðviðrisdaga til að hægt verði að saga úti undir beru lofti!
Samskipti Mógilsár við umheiminn horfa til bóta
Þrátt fyrir nálægðina við höfuðborgina hefur Mógilsá í Kollafirði verið jafn afskipt í upplýsingatæknimálum og afskekktustu afdalir. Farsímar hafa varla virkað nema með því að klifra upp á þak, en flutningsgeta símalínunnar (þessarar einu sem stundum virkar) hefur sniðið okkur þröngan stakk í gagnaflutningsmálum. Nú horfir hvort tveggja til mikilla bóta. GSM-sendir fer í gang á hlaðinu hjá okkur í dag, mánudaginn 22., og fljótlega í næstu viku megum við eiga von á örbylgjusambandi við Línu-Net.
Útibú Mógilsár á Miðnesheiði? Mógilsá í ástandið?
Svo sem kunnugt er, hefur Mógilsá rekið útibú á Akureyri frá haustinu 1998. Stefnan varðandi stofnun slíkra útibúa frá Mógilsá hefur reyndar ráðist meira af löngun starfsmanna til búsetu á tilteknum stöðum en stefnumótun um að dreifa starfseminni vítt og breitt um landið. Nú lítur út fyrir að sömu sjónarmið muni ráða því að stofnað verði til útibús Mógilsár innan Varnarliðsgirðingarinnar á Keflavíkurflugvelli. Þar hefur undanfarið eitt og hálft ár búið Dr. Dennis Riege, skógvistfræðingur, sem kvæntur er yfirlyfjafræðingi Varnarliðsins. Samningur hefur tekist við Umhverfisdeild varnarliðsins (United States Navy; Atlantic Division Naval Facilities Engineering Command) um að þeir fjármagni laun Dennis vegna skógræktarrannsókna á Suðurnesjum næsta árið, með styrk sem nemur kr 2 milljónir. Vinna Dennis mun annars vegar felast í því að safna gögnum úr tilraunum sem Rannsóknastöðin á Mógilsá kom á fót sumarið 1998 og hins vegar að koma af stað nýjum skógræktartilraunum inni á Keflavíkurflugvelli, í samvinnu við Mógilsá og Suðurlandsskóga.
Mógilsá seld? Starfsemin flutt? Rennur Mógilsá í Varmá?
Frá áramótum hafa ráðuneytismenn og fasteignasalar öðru hvoru knúið dyra á Mógilsá. Hafa þeir skoðað mannvirki á staðnum og beðið um upplýsingar til grundvallar mati á markaðsverðmæti lands, skóga og fasteigna. Hafa þessar upplýsingar verið góðfúslega veittar, án þess að skýr svör hafi komið frá viðtakendum um hvað standi til að gera við þær. Eins og fram kemur í pistli Viðarmiðlunar (19/4), kom nú síðast í heimsókn fasteignasalinn Magnús Leópoldsson til þess afla frekari gagna um markaðsverðmæti jarðarinnar. Talið er að þessi upplýsingaöflun kunni að tengjast þreifingum ríkisins í þá átt að selja Reykjavíkurborg nokkrar ríkisjarðir innan Reykjavíkur, þ.e.a.s. Keldur, Keldnaholt, Kollafjörð og Mógilsá. Starfsemi sú sem þar fer fram yrði þá að líkindum flutt annað. Heyrst hafa sögusagnir um að starfsemin á Keldum og Keldnaholti (Tilraunastöð HÍ í meinafræði; Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins; Iðntæknistofnun; hugsanlega RaLa) kunni þá að flytjast í fyrirhugað ?þekkingarþorp? í Vatnsmýrinni, en Mógilsá á Reykjatorfuna fyrir austan fjall, við hlið Garðyrkjuskólans. Þessar sögusafnir hafa þó ekki enn fengist staðfestar.
Hins vegar birtist athyglisverð klausa í nýjasta Aðalskipulagi Reykjavíkur. Í kaflanum þar sem fjallað er um hinn s.k. ?Græna trefil? um höfuðborgarsvæðið er tekið fram að ekki sé fyrirhugað að reisa mannvirki innan græna trefilsins. Þó mætti gera þar á undantekningu ef stæði til að reisa ?Garðyrkju- og skógræktarskóla? í útjaðri græna trefilsins! Því hlýtur sú spurning að vakna hvort standi til að flytja Mógilsá á Reyki eða Reyki á Mógilsá!
Kveðja, Aðalsteinn Sigurgeirsson