Glaðbeittir styrkþegar Vorviðar hjá Lionsklúbbi Laugardals við gróðursetningu sumarið 2021. Ljósmynd…
Glaðbeittir styrkþegar Vorviðar hjá Lionsklúbbi Laugardals við gróðursetningu sumarið 2021. Ljósmynd aðsend

Skógræktin auglýsir eftir umsóknum frá félögum og samtökum um styrki til skógræktar undir merkjum Vorviðar. Styrkirnir eru ætlaðir til skógræktar á vegum almennra félaga og samtaka en ekki fyrirtækja eða stofnana. Umsóknarfrestur er til 1. mars.

 

Auglýsing Vorviðar 2022

Sem hluta af aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum var Skógræktinni falið að efla tengsl við og styðja félagasamtök með sérstöku verkefni sem styddi við aðgerðaáætlunina og stuðlaði að bættri landnýtingu í þágu loftslags. Í samræmi við það var Vorviður settur á laggirnar á síðasta ári. Heiti verkefnisins er lýsandi fyrir það meðal annars að auglýst er eftir umsóknum um styrki á vormisseri ár hvert. Vorviður er því ákveðinn vorboði.

Hvað þarf til að vera með?

Kort sem sýnir dreifingu þeirra svæða sem gróðursett var í 2021 með styrkjum frá Vorviði. Birt með leyfi LoftmyndaFélag sem hlýtur styrk frá Vorviði gerir samning við Skógræktina fyrir eitt ár í senn. Samningnum fylgja leiðbeiningar um tegundaval og ræktun og er aðeins veittur styrkur til kaupa á plöntum af tilteknum tegundum skógartrjáa. Umsækjandi þarf að hafa leyfi landeiganda fyrir framkvæmdinni, verkefnið má ekki stangast á við verndarákvæði og landið þarf að vera friðað fyrir sauðfjárbeit.

Möguleika á styrk eiga formleg og óformleg félög sem ekki hafa aðgang að öðru fjármagni til skógræktar, svo sem góðgerðarfélög, áhugamannasamtök og vinnustaðafélög en einnig koma til greina önnur félög sem hafa aðgang að öðru fjármagni til skógræktar, svo sem skógræktarfélög. Fyrirtæki og opinberar stofnanir eða félög (hf., ehf., sf. eða ohf.) koma ekki til greina.

Vel heppnuð úthlutun 2021

Gróðursett að Reynivöllum í Kjós með styrk frá Vorviði. Aðsend myndEftir fyrstu úthlutun styrkja á vordögum 2021 gróðursettu félagar í 21 félagi liðlega 32.000 plöntur undir merkjum Vorviðar og munar um minna. Gróðursett var á 22 svæðum.

Skógræktarfélög voru í meirihluta þeirra sem hlutu styrki en þarna voru líka Lionsklúbbar, hestamannafélög, skotfélag og ferðafélag. Dreifing þeirra svæða sem góðursett í var nokkuð jöfn en náði þó aðeins til vesturhelmings landsins eins og sést á kortinu hér til hægri. Styrkupphæðir námu frá 75.000 krónum upp í 450.000 kr.

Ástæða er til að hvetja félög um allt land til að senda inn umsóknir og leggja sitt til skógræktarstarfsins í landinu með verkefnum sem efla samtakamátt, krydda tilveruna og stuðla að betra landi og bjartari framtíð jarðarbúa með meiri skógi.

Sækja um styrk

Texti: Pétur Halldórsson