Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Úthlutað hefur verið í fyrsta sinn styrkjum úr Vorviði, verkefni sem ætlað er að styðja við kolefnisbindingu með skógrækt á vegum félaga og samtaka vítt og breitt um landið. Styrki hljóta 23 félög, alls 8,7 milljónir króna sem dreifast í alla landshluta.
Alls bárust fjörutíu og tvær umsóknir um styrki að heildarupphæð um 30 milljónir króna. Þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er styrkjum í nafni Vorviðar og ánægjulegt að sjá bæði áhugann og fjölbreytnina í þeim verkefnum sem sótt er um styrki til.
Vorviður er hluti aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Markmið verkefnisins er að efla samstarf Skógræktarinnar og ýmissa félaga um allt land í því augnamiði að gefa félögum kost á að binda kolefni með eigin skógrækt. Styrkir Vorviðar eru ætlaðir félögum og samtökum með formlega starfsemi. Úthlutað var að þessu sinni til golfklúbba, fjallahjólaklúbbs, félags um endurreisn birkiskóga, Lionsklúbba, hestamannafélags, skotfélags, björgunarsveitar og nokkurra skógræktarfélaga. Forgang við úthlutun höfðu félög og samtök sem ekki eru nú þegar í skógrækt en hafa aðgang að svæðum sem þegar hafa verið skipulögð undir skógrækt.
Styrki hlutu efirfarandi:
- Golfklúbbur Brautarholts, 200.000 kr. til gróðursetningar við golfvöllinn Brautarholti Kjalarnesi
- Félagið Brimnesskógar, 450.000 kr. til endurheimtar hinna fornu Brimnesskóga Skagafirði
- Golfklúbburinn Mostri, 450.000 kr. til gróðursetningar á mörkum golfvallar og skógræktarsvæðis við Stykkishólm
- Íslenski fjallahjólaklúbbburinn, 450.000 kr. til gróðursetningar í landnemareit á svæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar
- Lionsklúbburinn Ösp, 200.000 kr. til gróðursetningar á Glerárdal
- Lionsklúbbur Hólmavíkur, 250.000 kr. til gróðursetningar í Hermannslundi
- Hestamannafélagið Geysir, 450.000 kr. til gróðursetningar á Gaddstaðaflötum
- Hestamannafélagið Borgfirðingur, 450.000 kr. til gróðursetningar umhverfis hesthúsahverfið í Borgarnesi
- Skotfélagið Markviss, 200.000 kr. til gróðursetningar við íþróttasvæði á Blönduósi.
- Björgunarsveitin Berserkir, 450.000 kr. til gróðursetningar í reit sveitarinnar á svæði Skógræktarfélags Stykkishólms
- Lionsklúbbur Laugardals, 150.000 kr. til gróðursetningar í uppblásturssvæði við Laugarvatnsfjall
- Ferðafélag Íslands, 450.000 kr. til gróðursetningar í stækkaðan landnemareit félagsins í Heiðmörk
- Skógræktarfélagið á Hólum, 350.000 kr. til gróðursetningar í Hólaskógi
- Skógræktarfélag Ísafjarðar, 450.000 kr. til gróðursetningar í Bröttuhlíð, á Tungudal og í Eyrarhlíð
- Skógræktarfélag Suðurnesja, 375.000 kr. til gróðursetningar í Njarðvíkurskóga
- Skógræktarfélag Rangæinga, 450.000 kr. til gróðursetningar í Bolholti
- Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, 450.000 kr. til gróðursetningar á gömlu urðunar- og jarðvegslosunarsvæði skammt frá Hvaleyrarvatni
- Skógræktarfélag Reykjavíkur, 450.000 kr. til gróðursetningar að Reynivöllum Kjós
- Skógræktarfélagið Lurkur, 450.000 kr. til gróðursetningar á svæði félagsins á Bakkafirði
- Skógræktarfélag Íslands, 450.000 kr. til gróðursetningar í lúpínubreiður við Úlfljótsvatn
- Fossá skógræktarfélag, 450.000 kr. til gróðursetningar í landi Fossár Hvalfirði
- Skógræktarfélag Strandasýslu, 350.000 kr. til gróðursetningar á Klúkumelum
- Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga, 300.000 kr. til gróðursetningar á Gunnfríðarstöðum
Skógræktin þakkar þann mikla áhuga sem verkefninu Vorviði hefur verið sýndur og óskar styrkhöfum góðs gengis í skógræktarverkefnum sínum. Styrkir verða greiddir út í nóvember þegar gögn um plöntukaup styrkþega hafa borist. Aftur er stefnt að því að auglýsa styrki lausa til umsóknar í lok ársins. Umsækjendur sem ekki hlutu styrk að þessu sinni en uppfylltu skilyrði verkefnisins eru sérstaklega hvattir til að sækja um á ný.
Verkefnisstjóri Vorviðar er Sæmundur Kr. Þorvaldsson, skógfræðingur og skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á síðu verkefnisins, skogur.is/vorvidur.