Myndarlegir timburstaflar við þjóðveg í Þýskalandi.
Misjöfn reynsla af einkareknum vottunarstofum
Tilhneiging er nú til þess í mörgum löndum að ríkisstofnanir taki á ný að fylgjast betur með vottun trjáviðar og uppruna hans. Undanfarna áratugi hefur þróunin verið sú að einkafyrirtæki sæju um þetta hlutverk. Stjórnvöld í viðkomandi löndum telja sig geta betur framfylgt stefnu sinni í skógarmálum og þar með lögum með því að efla stjórnsýslu sína á þessu sviði.
Frá þessu er greint í skýrslu sem nýkomin er út á vegum IUFRO, alþjóðasamtaka rannsóknarstofnana í skógvísindum. Skýrslan heitir á ensku From governance to government: The strengthened role of state bureaucracies in forest and agricultural certification. Titillinn vísar til þeirrar þróunar að hlutverk ríkisstofnana í vottunarmálum á skógar- og landbúnaðarsviðinu sé að styrkjast. Þetta hefur verið að koma æ meira í ljós eftir því sem fleiri áætlanir og verkefni um timburvottun á vegum hins opinbera hafa stungið upp kollinum og sömuleiðis vottun pálmaolíuframleiðslu í löndum á borð við Indónesíu.
Í skýrslunni eru dregnar saman upplýsingar og niðurstöður úr ýmsum nýjum rannsóknum sem benda til þess að stjórnvöld séu víða farin að taka aftur í sínar hendur stjórnsýslu vottunarmála með opinberum tilskipunum. Með öðrum orðum sé verið að hverfa frá fjölþjóðlegri einkarekinni stjórnsýslu yfir til alþjóðlegrar ríkisstjórnsýslu.
Dr Lukas Giessen er vísindamaður við Göttingen-háskóla í Þýskalandi og einn skýrsluhöfunda. Hann stýrir alþjóðlegum stýrihópi IUFRO um skógarmál, International Forest Policy Working Group. Giessen segir að þessi þróun í átt til opinbers eftirlits komi ekki að svo stöddu í staðinn fyrir aðferðir og tól hins frjálsa markaðar. Þetta sé hins vegar leið fyrir ríkin og sjálfstæðar stjórnsýslueiningar þeirra til að ná valdi á stefnumiðum sínum og lögsögu um aðgerðir til að framfylgja settri stefnu. Það þýði að ríkisvaldið muni hafa frumkvæði að því að veita tólum hins frjálsa markaðar aðhald.
Höfundar skýrslunnar segja að þessi breyting sé líkleg til að koma sér vel fyrir stóriðnað í þróunarlöndunum sem nú fái opinbera vottun eða löggildingu með auðveldari, skilvirkari og ódýrari hætti. Stjórnvöld í þróunarlöndunum sem taka upp slíka stjórnsýslu muni einnig njóta aukinna skatttekna og þar er pálmaolíuvottun í Indónesíu nefnd sem gott dæmi.
Skýrsluhöfundar benda þó á að með auknu vægi ríkisvottunar sé tilhneigingin sú að slakað sé á ýmsum kröfum og kostnaðurinn við vottunina lækki. Þar með verði þrýstingur á hinn frjálsa vottunarmarkað að hann slaki einnig á kröfum og lækki verðið, vottunarstofur á borð við hina þekktu FSC til dæmis. Sú þróun sé þegar hafin í Indónesíu. Á endanum muni þetta gagnast skógariðnaði um allan heim. Ekki sé þó víst að þetta falli öllum í geð.
Þá er þeim varnaðarorðum bætt við að auknar kröfur um opinbera vottun feli óhjákvæmilega í sér neikvæð áhrif á lönd þar sem stjórnkerfi er veikt eða frumstætt, svo sem hjá frumbyggjaþjóðum sem berjast nú fyrir þeim grundvallarréttindum sínum að fara með skógana að sínum hætti. Sömuleiðis geti hvorki vottun né löggilding vegið upp það ójafnræði sem er á timburmarkaði milli smárra og stórra framleiðenda. Í raun geti þetta aukið á ójafnræðið.
Dr. Giessen segir að skýrslan sé mótvægi við þær rannsóknir sem áður hafi birst með samanburði á einkarekinni vottun og opinberri. Þar hafi tilhneigingin verið að ofmeta hlutverk einkageirans. Skýrslan sýni líka hversu mikilvægt hlutverk ráðuneyti og önnur opinber stjórnsýsla geti leikið og leiki í vottunarpólitík um allan heim. Þá vísi þessar niðurstöður veginn til nýrrar stefnu í alþjóðlegri skógarpólitík undir forystu UNFF, skógasviðs Sameinuðu þjóðanna, með því að viðurkenna, sérstaklega í þróunarlöndunum, ákvörðunarrétt ríkja og að almannaréttur sé ofar rétti einkamarkaðarins.
.">
Loks gerir Dr Giessen ráð fyrir því að útgáfu skýrslunnar verði fagnað í ráðuneytum skógarmála um allan heim enda endurspegli skýrslan frá sjónarhóli ráðuneytanna raunsærri sýn á stefnu og stjórnmál en vænta megi frá einkageiranum. Skýrslan geti líka orðið hvatning einkafyrirtækjum á sviði vottunar til að þróa vinnubrögð sín og áherslur svo þau geti betur staðið sig í samkeppninni.
Skýrsluna er að finna á vefnum dx.doi.org og þar eru dregnar saman niðurstöður ýmissa ítarlegri rannsókna á efnum á borð við eftirfarandi:
- Sjálfskipuð og lögbundin vottun pálmaolíuframleiðslu í Indónesíu
- FSC- og PEFC-vottun í Argentínu
- Áherslur hlutaðeigenda í skógarvottun í Indónesíu