(mynd: Hreinn Óskarsson)
(mynd: Hreinn Óskarsson)

Fyrir um mánuði síðan, eða hinn 10. júlí, brann hið sögufræga hús Hótel Valhöll til grunna á nokkrum klukkustundum. Mikill hiti var í nágrenni eldsins og brunnu og sviðnuðu nokkur tré í nágrenni rústanna. Nú mánuði síðar hafa rústir hótelsins verið rifnar og tyrft yfir. Það sem helst vekur athygli skógræktarmanna á brunastaðnum er hversu lífseigt íslenska birkið er. Sviðin tré sem standa í næsta nágrenni við rústirnar og hafa orðið fyrir gífurlegum hita af eldinum eru byrjuð að skjóta upp rótarskotum eins og myndin sýnir (smellið til að stækka myndina). Má gera ráð fyrir að þó nokkuð sé liðið á sumarið ættu þessi tré að geta myndað dvalarbrum og lifnað aftur næsta vor. Líklegt má telja að birkið gæti á sama hátt spírað og skotið upp öngum í kjölfar skógarelda, en sem betur fer eru slíkar hörmungar afar sjaldgæfar hér á landi.


Þingvellir eftir bruna (2)