Sigurður Pálsson, formaður stjórnar Yrkju; Frú Vigdís Finnbogadóttir, frumkvöðull Yrkjuverkefnisins og Einar Sveinsson, stjórnarformaður Glitnis, við opnun yrkjuvefsins. Mynd: Jim Smart / Morgunblaðið.

Nýr námsvefur um tré og gróðursetningu, Yrkjuvefurinn yrkja.is, var opnaður við hátíðlega athöfn í Grasagarðinum í Laugardal í gær. Á vefnum er að finna fjölbreytt safn upplýsinga og námsefnis sem tengist skógrækt en bæði kennarar og nemendur geta sótt þangað fræðsluefni.

Það er Yrkjusjóður sem stendur að vefnum en sjóðurinn var stofnaður árið 1990 í tilefni af 60 ára afmæli þáverandi forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur. Markmið sjóðsins er að standa undir kostnaði við það að íslensk skólabörn á grunnskólastigi planti trjám en Skógræktarfélag Íslands fer með vörslu og framkvæmd verkefna sjóðsins.

Á hverju ári taka sjö til átta þúsund grunnskólanemendur í um hundrað skólum þátt í gróðursetningu á plöntum sem Yrkjusjóðurinn hefur keypt, en um hálf milljón plantna hafa verið gróðursettar, að mestu birki.

Helsti styrktaraðili Yrkjuvefjarins er Glitnir en auk þess studdi Yrkjusjóðurinn sjálfur verkefnið ásamt menntamálaráðuneytinu en Námsgagnastofnun hafði yfirumsjón með gerð hans.

(Morgunblaðið, föstudaginn 23. júní, 2006 - Innlendar fréttir)

Sjá nánar ítarlega frétt á vef Skógræktarfélags Íslands.