Björn Bjarndal Jónsson, verkefnisstjóri úrvinnslu- og markaðsmála hjá Skógræktinni, talar hér á fund…
Björn Bjarndal Jónsson, verkefnisstjóri úrvinnslu- og markaðsmála hjá Skógræktinni, talar hér á fundinum á Selfossi þegar samningur Félags skógareigenda á Suðurlandi við SASS var undirritaður. Mynd Hreinn Óskarsson.

Afurðateymi hefur störf og rekstrarfélag í undirbúningi á Suðurlandi

Sex manna teymi Skógræktarinnar og Landssamtaka skógareigenda um úr­vinnslu- og markaðsmál hittist á sínum fyrsta fundi á Hallormsstað í síðustu viku. Fleira er að gerast í þessum efnum því á föstudag skrifuðu Landssamtök skógar­eigenda undir samning við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga um styrk til stofnunar rekstrarfélags um markaðsmál skógar­afurða.

Fyrsti fundur afurðateymis

Á vef Landssamtaka skógareigenda (LSE), skogarbondi.is, er greint frá því samstarfi sem efnt hefur verið til við Skóg­rækt­ina um vöruþróun, markaðs­setningu og sölu­mál. Teymi skipað þremur full­trúum frá hvorum þessara aðila hélt sinn fyrsta fund í liðinni viku á Hallormsstað.


Fyrsta verk hópsins verður að líta yfir sviðið og taka saman þá starfsemi og verkefni sem nú þegar eru komin í gang og raða þeim verkefnum sem fram undan eru í forgangsröð í samræmi við stefnu Skóg­ræktarinnar og LSE. Í lok fund­arins á Hall­ormsstað sýndu þau Þór Þorfinnsson skógarvörður og Bergrún Arna Þorsteins­dóttir aðstoðar­skógar­vörður fundarfólki viðarvinnsluna á staðnum og þær afurðir sem þar eru unnar.

Björn B. Jónsson er verkefnisstjóri úr­vinnslu- og markaðsmála hjá Skógræktinni og auk hans eru fulltrúar Skóg­rækt­ar­innar í teyminu þau Bergrún Arna Þorsteinsdóttir og Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri fjármálasviðs. Fulltrúar LSE í teyminu eru Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður, Hrönn Guðmundsdóttir framkvæmda­stjóri og Gunnar Sverrison, skógar­bóndi í Hrosshaga í Biskupstungum. Á vef LSE kemur fram að samtökin bindi miklar vonir við störf teymisins og fulltrúarnir hlakki til framhaldsins.

Styrkur til stofnunar rekstrarfélags

Þá er líka tíundað á vef LSE að Félag skógareigenda á Suðurlandi hafi boðað til félagsfundar hjá Samtökum sunn­lenskra sveitarfélaga (SASS) í Fjölheimum á Selfossi á föstudaginn var. Tilefni fundarins var að skrifa undir samning við SASS um styrk til undirbúnings og stofnunar rekstrarfélags sem móta skal stefnu, greina tækifæri í úrvinnslu og makaðssetningu skógarafurða og kynna verkefnið. Verkefnið er skilgreint áhersluverkefni en þau eru unnin á grund­velli Sóknaráætlunar Suðurlands, og fjármagnið kemur úr áætluninni.

María E. Ingvadóttir, formaður stjórnar félags skógarbænda á Suðurlandi, og Hrafnkell Guðnason frá Háskólafélagi Suðurlands undirrituðu samninginn og ávörpuðu samkomuna. María ræddi í stuttu erindi um framtíðaruppbyggingu skógarauðlindarinnar. Auk þeirra héldu Björn B. Jónsson, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Hrönn Guðmunds­dóttir, framkvæmdasjóri LSE, og Þórður Freyr Sigurðsson, sviðstjóri þróunarsviðs SASS, stuttar ræður. Skógar­eig­end­ur fjölmenntu á fundinn og þar komu ýmsir aðrir góðir gestir m.a. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Björn B. Jónsson, verkefnisstjóri úrvinnslu- og markaðsmála hjá Skógræktinni, og Hreinn Óskarsson, sviðstjóri sam­hæf­ing­ar­sviðs Skógræktarinnar.

Óhætt er að taka undir með LSE um að margt sé að gerast í skógræktarmálum og mikil tækifæri að skapast í upp­bygg­ingu á þessari ungu atvinnugrein. Rétt eins og Landssamtök skógareigenda gera á síðu sinni  óskar Skógræktin Félagi skógareigenda á Suðurlandi til hamingju með styrkinn og velfarnaðar í þeim störfum sem fram undan eru.

Texti: Pétur Halldórsson