Frá afhendingu viðurkenninga á hátíð Sameykis. Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs S…
Frá afhendingu viðurkenninga á hátíð Sameykis. Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Skógræktarinnar og hana má sjá aðra frá hægri á myndinni. Ljósmynd: sameyki.is

Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, hefur birt niðurstöður úr könnun sinni á starfsumhverfi fólks í opinberri þjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum árið 2021. Í flokki meðalstórra stofnana með 40-89 starfsmenn lenti Skógræktin í fimmta sæti og telst þar með vera fyrirmyndarstofnun. Þetta er í annað sinn sem Skógræktin fær sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun en stofnunin hefur allt frá sameiningu 2016 alltaf verið meðal 10 efstu í sínum flokki.

Merki fyrirmyndarstofnunar 2021Í flokki meðalstórra stofnana eru fimm stofnanir útnefndar fyrirmyndarstofnanir. Menntaskólinn á Egilsstöðum lenti í fyrsta sæti og er því stofnun ársins í sínum flokki. Því næst koma Ríkisendurskoðun, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Skógræktin sem fá sæmdarheitið „fyrirmyndarstofnun“. Allar þessar stofnanir voru í flokki stórra stofnana í síðustu mælingu, nema Menntaskólinn á Egilsstöðum. Ríkisendurskoðun var þá í fjórða sæti, Fjölbrautarskólinn í Garðabæ í öðru sæti, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra var í þriðja sæti og Skógræktin í því níunda.

Þættir sem mældir voru í könnuninni voru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og að síðustu jafnrétti. Heildareinkunn Skógræktarinnar 2021 var 4,31 en var 4,24 2020.

Hæsta einkunn fær Skógræktin fyrir jafnrétti, einkunnina 4,60, og af fyrirmyndarstofnunum fimm í flokki meðalstórra stofnana er það einungis Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra sem fær hærra fyrir jafnrétti. Lægst fær Skógræktin fyrir launakjör rétt eins og í fyrri könnunum, 3,42. Þó hefur sú einkun hækkað úr 3,19 frá síðustu könnun 2020. Flestar einkunnirnar eru þó á svipuðu róli og í síðustu könnun en tölur hafa hækkað í sjö af níu atriðum sem spurt var um. Örlítið lægri einkunn er nú fyrir starfsanda og sveigjanleika vinnu en varla marktækur munur. Í eftirfarandi töflu má sjá tölurnar frá 2020 og 2021.

Taflan sýnir niðurstöður könnunarinnar hjá Skógræktinni fyrir árin 2020 og 2021.
Taflan sýnir niðurstöður könnunarinnar hjá Skógræktinni fyrir árin 2020 og 2021.

Um könnunina

Valið á stofnun ársins 2021 var tilkynnt á hátíð Sameykis 16. mars en titlana „stofnun ársins“ og „stofnun ársins - borg og bær“ hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim þáttum sem könnun Sameykis náði yfir að mati starfsmanna þeirra. Stofnanir ársins 2021 eru Heilsustofnun NFLÍ, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Jafnréttisstofa og Frístundamiðstöðin Tjörnin. Hástökkvarar ársins eru Ríkiskaup og Frístundamiðstöðin Miðberg.

Könnunin náði til um 31 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum. Hún er unnin í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og mannauðsdeild Reykjavíkurborgar og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á opinbera vinnumarkaðnum. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu, þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum. Alls fengust gild svör frá rúmlega 13.300 starfsmönnum og svarhlutfallið var 43 prósent.

Frétt: Pétur Halldórsson