Skógasvið FAO hefur efnt til samkeppni um hönnun stuttermabola til að vekja athygli á alþjóðlegum degi skóga 2019 sem helgaður er skógum og fræðslu. Vinningstillagan verður notuð sem opinber stuttermabolur þessa dags sem er 21. mars.
NordGen og SNS bjóða námsstyrki til að örva menntun og þekkingarmiðlun um framleiðslu á trjáplöntufræi og skógarplöntum, um aðferðir við endurnýjun skógar og trjákynbætur. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar.
Skógræktin auglýsir eftir aðilum til að framleiða alaskaösp til afhendingar árin 2020 og 2021. Lágmarksmagn á framleiðanda er 500 bakkar.
Skógræktarstjóri vonar að björgunarsveitirnar og Skógræktarfélag Íslands haldi áfram að bjóða landsmönnum að kaupa Rótarskot um áramót og upp vaxi „Áramótaskógar“ um allt land. Rætt var við hann um aukna skógrækt í landinu í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Framkvæmdir eru hafnar við nýjan miðbæ á Selfossi. Þar er brugðið út af þeirri algengu venju að ryðja burt öllum trjágróðri áður en grafið er fyrir grunnum húsa. Í staðinn eru rótgróin tré skilin eftir og því þarf ekki að bíða áratugi eftir að slíkur trjágróður prýði hinn nýja miðbæ.