Stutt, opin málstofa um skógartengdar lausnir sem flýta fyrir umskiptum úr ósjálfbæru einstefnuhagkerfi yfir í sjálfbært lífhagkerfi byggt á hringrásum verður haldin í opnu streymi fimmtudaginn 30. júní. Þar verða kynnt raunveruleg dæmi og efnt til umræðna.
Íslendingar taka þátt í vinnu hóps á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem vinnur að því að móta vinnureglur eða viðmið um vottuð kolefnisverkefni sem meðal annars má ráðast í til að kolefnisjafna með ábyrgum hætti rekstur fyrirtækja og stofnana. Drög að þessum viðmiðum verða opin til umsagnar frá og með 8. júní.
Áfram verður haldið í sumar við gróðursetningu vegna samninga við fjölþjóðafyrirtækið Land Life sem hófust í fyrrasumar. Þegar sumarið er úti verða komnar niður trjáplöntur á vegum Land Life í um 600 hektara lands. Fulltrúar Land Life voru á Íslandi í síðustu viku til að skoða framvindu verkefna og ræða framhald samstarfsins.
Út er komin grein um rannsóknir á sjálfsáningu stafafuru í Steinadal í Suðursveit. Í ljós kemur að furan dreifir sér þéttast næst gróðursettum skógi í dalnum en þegar fjær dregur verður sjálfsáning birkis mun þéttari og aðeins furur á stangli innan um. Mjög fáar furur sáðu sér út í þéttustu gróðursvæðin og engin inn í gamla birkiskóginn í Steinadal. Furan nær sér helst upp á gróðurlitlum áreyrum. Höfundar telja mikilvægt að rannsaka útbreiðslu stafafuru víðar um landið.
Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, er aðalhöfundar nýrrar ritrýndar vísindagreinar sem komin er út í tímaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Þar eru settar fram vaxtarjöfnur fyrir sitkagreni á Íslandi sem nýtast til að bæta gerð áætlana um ræktun, umhirðu, nytjar og bindingu sitkagreniskóga hérlendis.