Út eru komin á Youtube-rás Skógræktarinnar sextán myndbönd úr ferð skógræktarfólks af Austurlandi sem farin var til vesturstrandar Norður-Ameríku haustið 2013. Þar voru meðal annars skoðuð hæstu, mestu og elstu tré í heiminum, farið á slóðir stafafuru, sitkagrenis og fleiri merkra trjátegunda. Myndefnið tók Hlynur Gauti Sigurðsson en Kolbrún Guðmundsdóttir sá um samsetningu ásamt Hlyni.
Fyrirtæki leita í auknum mæli til Skógræktarinnar með það fyrir augum að kolefnisjafna starfsemi sína. Skógræktarstjóri segir í fréttaviðtali við Ríkisútvarpið að ekki sé seinna vænna fyrir fyrirtæki að byrja að leita leiða til að mæta skuldbindingum Íslands um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.
Vísindalegum aðferðum til að meta fegurð, upplifunar- og útivistargæði skóga er beitt í grein eftir Þorberg Hjalta Jónsson, sérfræðing á rannsóknasviði Skógræktarinnar, sem komin er út í Riti Mógilsár. Mælikvarðana sem þar eru settir fram má nota við skipulagningu, grisjun, kortlagningu og verðmat á útivistarskógi.
Skógar virðast vera samofnir hugmyndum Íslendinga um nærumhverfi sitt og landslag og vart hægt að finna þéttbýli á Íslandi þar sem lítið eða ekkert hefur verið gróðursett af trjám í nágrenninu eða innan byggðarinnar. Skógarreitir eru líka við sveitabæi. Skógar eru stærri hluti af menningu okkar en við höldum. Fyrirbærin skógrækt og menningararfur eiga nefnilega meira sameiginlegt en margur myndi halda við fyrstu sýn. Daníel Godsk Rögnvaldsson, nemi í sjálfbærri menningarstjórnun við Árósaháskóla skrifar um þetta grein á skogur.is.
Fulltrúi bresku sjálfseignarstofnunarinnar Mossy Earth var á Íslandi á dögunum til að kynna sér vernd og útbreiðslu íslenskra birkiskóga. Í kjölfarið var undirritaður samningur við Skógræktina um fyrsta verkefnið sem Mossy Earth fjármagnar hérlendis, gróðursetningu 50.000 birkiplantna á Bakkakotshálsi í Skorradal vorið 2022.