Í Kjarnaskógi í Eyjafirði stendur tignarlegt tré sem gengur undir nafninu Margrét eða jafnvel frú Margrét. Tréð fannst af algjörri tilviljun fyrir um þrjátíu árum þegar unnið var við grisjun á skóginum. Engar heimildir eru til um uppruna þess. Í Sögum af landi á Rás 1 var rætt við Helga Þórsson, bónda og skógræktarmann, annan þeirra sem fundu tréð á sínum tíma.
Verkefnastjóri stígaviðhalds á Þórsmerkursvæðinu segist aldrei hafa upplifað annað eins sumar og það sem nú er á enda og sjálfboðaliðahóparnir hafi komið miklu í verk við stígalagningu, viðhald og önnur verkefni. Um sjötíu sjálfboðaliðar víða að úr heiminum hafa unnið þar í sumar og samtals skila þeir sem svarar rúmlega 200 vikna vinnu.
Nýjar tegundir meindýra festa sífellt rætur hér á landi. Birkiþéla hefur leikið birkitré á höfuðborgarsvæðinu grátt síðari hluta sumars. Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, segir að hlýnun sé líklega ástæðan fyrir því að sífellt séu fleiri tegundir að bætast við.
Sjö skarfar sáust í morgun sitjandi í aspartrjám í Eyjafjarðarsveit. Ekki er útilokað að skarfar taki upp á því að verpa í trjám á Íslandi eftir því sem skógar vaxa og tré stækka því sá er háttur þeirra í útlöndum.
Hæsta tré landsins er 70 ára á þessu ári og á nú aðeins eftir að vaxa rúman metra til að ná 30 metra hæð. Tré hafa ekki náð þessari hæð á Íslandi frá því að stórvaxnar trjátegundir þrifust á landinu fyrir milljónum ára. Tréð stendur á Kirkjubæjarklaustri og mældist 28,7 metrar á hæð nú fyrr í vikunni. Undanfarin ár hefur þetta tré hækkað um allt að hálfan metra á hverju ári og ef það vex áfram áfallalaust næstu árin ætti það að ná þrjátíu metra hæð innan fárra ára.