Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri flutti ávarp við upphaf aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sem fram fór í Kópavogi 30. ágúst til 1. september 2019. Þar reifaði hann svör við nokkrum spurningum um þau verkefni sem eru fram undan í skógrækt á Íslandi og almennar framtíðarhorfur. Þröstur telur að nægilegt land sé til að auka skógrækt en huga verði að auknu hlutverki verktaka við gróðursetningu. Uppbygging sé fram undan hjá gróðrarstöðvum til að mæta vaxandi eftirspurn. Nóg sé til af fræi af helstu trjátegundum þótt betur þurfi að huga að framboði á stafafurufræi og vinna áfram að aukinni fræframleiðslu á Hrym. Til framtíðar þurfi að huga að útbreiðslu birkis hærra yfir sjó og endurskoða notkun á rússalerki með hlýnandi loftslagi. Jafnframt þurfi að huga að uppbyggingu timburauðlindarinnar, meðal annars svo timbur geti leyst steinsteypu af hólmi í byggingum.
Nýjum skógræktarlögum var fagnað í ályktun á nýafstöðnum aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem fram fór í Kópavogi. Fundurinn ályktaði að tryggja þyrfti nægt fjármagn til gerðar landsáætlunar í skógrækt. Þá hvatti fundurinn ráðamenn til að tryggja skilvirka kolefnisbindingu og tegundafjölbreytni í Landgræðsluskógum og sömuleiðis var því beint til ríkisstjórnarinnar að skógræktarfélögum yrði útvegað land til skógræktar.
Á tímabilinu 1987 til 2007 varð engin breyting á lífmassa ofanjarðar í náttúrulegu birkiskóglendi á Íslandi. Eðlilega mældist hins vegar aukning á svæðum þar sem birki hefur numið nýtt land. Þetta eru niðurstöður íslenskra vísindamanna sem birtar hafa verið í ritinu Icelandic Agricultural Sciences (IAS).
Skógræktarfélag Kópavogs hefur í samvinnu við Kópavogsbæ opnað fræðslusetur í Guðmundarlundi í Kópavogi. Þar er fyrsta flokks aðstaða til útikennsla og lögð verður áhersla á náttúrulæsi, umhverfis- og náttúruvernd og áhrif loftslagsbreytinga á umhverfið.
Nokkrir landeigendur á Skógarströnd á norðanverðu Snæfellsnesi sameinuðust um girðingar á jörðum sínum til að auðveldara og hagkvæmara væri að stunda þar uppgræðslu og skógrækt. Nú er ströndin farin að standa undir nafni sínu og þar breiðast út bæði ræktaðir skógar og villt birkiskóglendi. Girðingin nær utan um átta samliggjandi jarðir, samtals um 12 þúsund hektara. Af þessum átta jörðum er skógrækt stunduð á fimm þeirra en allur gróður á svæðinu er í mikilli framför.