Landssamtök skógareigenda (LSE) auglýsa starf framkvæmdastjóra laust til umsóknar. Um er að ræða 80 % starf og er miðað við að ráðið verði í það frá 1. nóvember 2017, eða eftir samkomulagi.
Í morgun hófst fræðileg alþjóðleg ráðstefna um jólatrjáarækt á Hótel Natur Svalbarðsströnd við Eyjafjörð. Þar eru samankomnir margir af helstu vísindamönnum á sviði jólatrjáarannsókna í heiminum og ræða um ræktunaraðferðir, kynbætur, sjúkdóma, meindýr og fleira. Ráðstefnan stendur fram á föstudag.
Skotland var skóglaust land fyrir tvö hundruð árum og þá var meðalhiti þar litlu hærri en nú er á Íslandi. Á þeim tíma hófu Skotar að rækta stórvaxnar trjátegundir eins og degli og risafuru líkt og Íslendingar eru að fikta við nú. Meginmarkmið skógræktar er þó ekki að rækta fleiri tegundir heldur meiri og betri skóga. Í ávarpi sínu við upphaf aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sagði Þröstur Eysteinsson skógræktarstóri að skógrækt gæti verið hluti lausnarinnar á aðsteðjandi vanda sauðfjárræktarinnar.
Undanfarna daga hefur verið unnið að því að flytja boli úr timburstæðum á Vesturlandi sem sumar hverjar hafa beðið flutningsins lengi. Skakka stæðan í Písa heyrir til að mynda brátt sögunni til. Afhentir verða 1.500 rúmmetrar af kurlefni til járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga á næstu vikum.
Skógræktin og Landskógar ehf. hafa gert með sér samkomulag um skógrækt til kolefnisbindingar. Landsskógar ehf. hyggjast afla fjármagns til kolefnisbindingar með skógrækt, ekki síst frá aðilum í ferðaþjónustu sem áhuga hafa á slíkum verkefnum.