Ilmbjörk (Betula pubescens) er eina íslenska trjátegundin sem myndar samfelldan skóg. Hún er ein mest gróðursetta trjátegundin í skógrækt á Íslandi undanfarin ár. Mikilvægt er að efniviðurinn sé góður og valin séu þau kvæmi birkis sem henta á því svæði sem gróðursett er á. Þá er ljóst að kvæmi geta verið misvel móttækileg fyrir ýmsum skaðvöldum. Einnig getur verið munur á því hversu mikið meindýr sækja í viðkomandi kvæmi.
Vaglaskógur er þekkt snjóakista enda stendur starfstöð Skógræktarinnar þar í nær 150 metra hæð yfir sjávarmáli. Skógurinn veitir skjól en safnar jafnframt í sig snjó á vetrum. Fyrir kemur að jörð sé snævi þakin í sjö mánuði í Vaglaskógi. Í Ársriti Skógræktarinnar 2020 er fjallað um snjóalög í skóginum í meira en 100 ár.
Í Ársriti Skógræktarinnar fyrir árið 2019 var sagt frá nýju verkefni, Skógarkolefni, sem Skógræktin hafði þá hrundið af stað. Með því væri ætlunin að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Þar með yrði í fyrsta sinn á Íslandi hægt að versla með vottaðar einingar kolefnis sem bundið er með nýskógrækt. Ein eining samsvarar einu tonni af koltvísýringi. Sá sem losar eitt tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið og vill kolefnisjafna það með ábyrgum og viðurkenndum hætti þarf að sjá til þess að eitt tonn af koltvísýringi verði bundið á ný, til dæmis í skógi. Nú eru fyrstu verkefnin að verða að veruleika undir merkjum Skógarkolefnis og fjallað er um það í Ársriti Skógræktarinnar 2020.
Skógasvið norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar NordGen fagnar nú ásamt samstarfsaðilum sínum hálfrar aldar samstarfi norrænnar samvinnu um rannsóknir og þekkingarmiðlun á sviði skóga og skógræktar. Nýverið var ákveðið að stefna fólki saman til afmælisráðstefnu sem haldin verður með hefðbundnum hætti í Elverum í Noregi 22.-23. september í haust.
Rannsóknasvið Skógræktarinnar hvetur fólk til að líta eftir skaðvöldum á trjám og runnum um allt land og láta vita ef vart verður við áberandi eða óvenjulegar skemmdir vegna smádýra, sjúkdóma, veðurs eða annars sem skemmt getur trjágróður. Myndir og greinargóðar lýsingar eru vel þegnar.