Í spám um loftslagsbreytingar er gert ráð fyrir meiri hlýnun að vetri en sumri. Fyrir skógrækt á Íslandi má segja að almennt dragi úr hættu á frostskemmdum að hausti en að líkur á ótímabærri lifnun á útmánuðum með mögulegum frostskemmdum að vori muni aukast. Hitasumma til trjávaxtar mun hækka og gefa aukinn trjávöxt. Loftslag, og þá sérstaklega vetrarhiti, á okkar helstu skógræktarsvæðum í dag mun líklega þróast í átt að hitafari sem við þekkjum á SA-landi. Því væri æskilegt að prófa erfðaefni skógræktar í auknum mæli á því svæði til að meta hæfni þess gangvart hlýnandi loftslagi framtíðarinnar. Til að mæta spáðri hlýnun þarf að leita í efnivið sem er aðlagaður loftslagi sunnar eða nær sjó. Fyrir íslenska birkið er rökrétt að kvæmi sem eru aðlöguð mildu loftslagi SA-lands henti betur framtíðarloftslagi Íslands almennt samanborið við innlandskvæmi frá öðrum landshlutum og er það í samræmi við núverandi reynslu. Ísland nýtir nú þegar kvæmi stafafuru og sitkagrenis sem eru frá norðurhluta útbreiðslusvæðis þessara tegunda. Því er mikið svigrúm til að færa notkunina á næstu áratugum yfir á suðlægari kvæmi samhliða hækkandi loftslagshita. Bæði sitkagreni og stafafura mynda fræ reglubundið utandyra á Íslandi sem gerir öflun á réttu fræi á hverjum tíma mögulega. Erfiðara verður að þróa efnivið af alaskaösp og rússalerki sem getur mætt aukinni tíðni vetrarumhleypinga án frostskemmda. Velja þarf klóna af ösp sem lifna fremur seint að vori og viðhalda erfðabreytileika í klónavali til skógræktar til að draga úr ræktunaráhættu. Reglubundið á næstu áratugum þarf að víxla góðum klónum til að búa til nýja einstaklinga sem þola betur loftslagsbreytingar, samhliða því sem þessar breytingar raungerast. Í lerkinu þarf að færa notkunina strax frá rússalerki yfir í tegundablendinginn Hrym og mögulega yfir í evrópulerki á næstu áratugum. Ekki er mögulegt að útvega lerkifræ af Hrymi með frægarði utandyra og mjög ótryggt er með lerkifræ almennt frá útlöndum. Brýnasta einstaka aðgerðin við aðlögun erfðaefnis skógræktar að loftslagsbreytingum er að auka framleiðslu á Hrymsfræi innandyra enda annar núverandi framleiðsla aðeins litlum hluta eftirspurnar.

Meira