Skógarskaðar og aðlögun að loftslagsbreytingum
Hrefna Jóhannesdóttir og Hreinn Óskarsson, Skógræktinni.

Eftir því sem skógar hér á landi verða hávaxnari og víðfeðmari um land allt má búast við meiri sköðum á þeim í óveðrum. Þetta er vandamál víða um lönd og hafa loftslagsbreytingar af mannavöldum þegar valdið aukinni tíðni skemmda á skógum. Þekktustu dæmin eru líklega skógareldar t.d. í Kaliforníu og Ástralíu sem stafa af breytingum í úrkomumynstri, en einnig má nefna stormfall í Skandinavíu og Evrópu.

Í fyrirlestrinum er aðeins fjallað um „mekanískar“ skemmdir á skógum. Aukin úrkomuákefð sumar sem vetur, hlýrri vetur og aukin tíðni öflugra lægðakerfa eru meðal þeirra breytinga sem búist er við að verði mest áberandi á Íslandi. Einnig má gera ráð fyrir að gróðureldar, þ.m.t. skógareldar, geti orðið vandamál, bæði á vetrum þegar snjólausum dögum fjölgar, en líka má nefna sem dæmi að eldhætta var á Austur- og Norðurlandi þurrkasumarið 2021 þó ekki hafi kviknað eldar.

Rétt umhirða skóga getur að öllum líkindum dregið úr skemmdum á skógum. Ef margstofna tré eða tré sem eru með lélegt rótarkerfi eru fjarlægð í fyrstu grisjun skóga minnkar hætta á að tré klofni eða rótvelti. Leiða má líkur að því að „rétt“ val og skipulag á trjátegundum í nýjum skógum og rétt umhirða á uppvaxtarárum skóganna, geti dregið úr hættu á skemmdum, bæði af skógareldi, snjóbroti og stormfalli. Líklegt er að skógrækt í fjallshlíðum geti í einhverjum tilfellum dregið úr hættu á skriðuföllum og nýst sem mótvægisaðgerð.

Ekki er ljóst á þessari stundu hversu mikil áhrif loftslagsbreytingar eiga eftir að hafa á skógarskaða hér á landi. Ljóst er að með aukinni skógrækt eykst hættan á slíkum skemmdum. Mikilvægt er að bæta vöktun og skráningu á skemmdum á skógum af veðurtengdum þáttum sem og á gróður- og skógareldum. Niðurstöður af slíkri vöktun geta til lengri tíma bætt verklag og þekkingu á hvernig draga megi úr hættu á skógarsköðum.

Meira