Tré í árbakka – Náttúrumiðaðar lausnir í bakkavörnum
Magnea Magnúsdóttir og Jón Örvar G. Jónsson, ON

Sjálfbærar bakkavarnir voru gerðar í Andakílsá til að bæta fyrir skemmdir á bakka í gegnum aldirnar og koma í veg fyrir frekara landrof. Notaðar voru náttúrumiðaðar lausnir í verkefninu, meðal annars voru trjábolir með rótum settir í bakkann til að styrkja hann. Verkefninu lauk sumarið 2022 og er þetta nýsköpunarverkefni fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Andakílsárvirkjun er lítil 8 MV virkjun í Borgarfirði sem nýtir Skorradalsvatn og Andakílsá til framleiðslu á rafmagni. Virkjunin var tekin í notkun árið 1947 og var mikilvæg skref í að rafmagnsvæða Borgarnes og nærsveitir á sjálfbæran hátt. Orka náttúrunnar tók við virkjuninni árið 2014.

Mikil áhersla hefur verið á að koma til móts við hagsmunaaðila og draga úr áhrifum virkjunarinnar á náttúru og umhverfi og haustið 2022 var hafist handa við að byggja upp náttúrlegar bakkavarnir í Andakílsá. Tildrög verkefnisins var mikið rof á bökkum árinnar, sem höfðu skemmst í gegnum tíðina vegna áhrifa frá rekstri Andakílsárvirkjunar frá því að hún tók til starfa árið 1947. Bakkarofið var um 200 metrar að lengd og hafði áin færst sig um 50–75 metra til suðurs á 50 árum með tilheyrandi rofi á landi og árbotni. Ef ekkert væri aðhafst myndi rof á bakka og árbotni halda áfram um 1–2 metra á ári þar sem jarðvegslögin á svæðinu eru að stórum hluta einkar rofgjarn jökulleir.

Rofið hefur neikvæð áhrif á ána og lífríki hennar, landið í kring og var einnig farið að ógna innviðum Veitna, en stór hitaveitulögn liggur yfir Andakílsá á svæðinu. Því var brýnt að grípa til aðgerða.

Nánar