Notkun jarðvarma til viðarþurrkunar
Trausti Jóhannsson, skógarvörður Suðurlandi, Skógræktinni

Á hverju ári skila íslenskir skógar meiri afurðum en árið áður og er útlit fyrir að framleiðslan muni stóraukast á komandi árum og áratugum. Mikilvægur hluti af hagkvæmri skógrækt er góð og skilvirk þurrkun sem leiðir af sér betri afurðir og fleiri nýtingarmöguleika. Meginmarkmið þessa verkefnis er að skoða hvort og hvernig nýta megi jarðvarma til þurrkunar timburs en í leiðinni að athuga loftslagsávinning af þessari aðferð samanborið við innflutning á erlendu timbri og hvar á landinu er fýsilegt að nýta jarðvarma til þurrkunar timburs. Á árunum 1999-2018 var árlegur meðalinnflutningur á viðarafurðum 160 þúsund rúmmetrar en til samanburðar er áætlað að um 51 þúsund rúmmetrar af bolviði fáist árlega úr skógarhöggi á árunum 2030-2039. Talsverð eftirspurn er eftir íslensku timbri hvort sem er til húsbygginga, í klæðningar, eldivið, kurl eða húsgagnasmíði. Til að þurrka timbur er algengast að notaðir séu þurrkofnar þar sem loftflæði, hita og raka er stýrt þannig að rakastigið lækkar jafnt og þétt. Þrjár megingerðir þurrkofna eru notaðar:

Hefðbundinn þurrkofn sem blæs heitu lofti um timbrið og röku lofti skipt út fyrir þurrt loft.
Rakaþéttiofn sem blæs heitu lofti um timbrið en notar varmadælu til að þétta loftrakann. Engin loftskipti fara því fram.
Lofttæmisþurrkofn þar sem þrýstingur inni í ofninum er lækkaður þannig að suðumark vatns lækkar. Til að hita timbrið er það t.d. látið liggja á hitaplötum eða hitað með geislun.
Af þessum aðferðum er hefðbundinn þurrkofn hentugastur fyrir þurrkun með jarðvarma. Hefðbundnir þurrkofnar fást í ýmsum útfærslum sem hannaðir eru fyrir misháan hita inntaksvatns. Þá eru til útfærslur sem geta endurnýtt varma með loftvarmaskiptum en við það getur náðst allt að 25% varmaorksusparnaður. Útreikningar sýna að áætluð vatnsþörf til að þurrka 1.000 m3 af greni niður í 7% raka er um 15.000 m3 af 95°C heitu vatni, sem samsvarar árlegri notkun 12-16 meðaleinbýlishúsa á Íslandi. Þegar vatnið kemur úr þurrkofninum er það um 80°C og því enn nógu heitt til að nota til húshitunar. Með nýtingu jarðvarma þarf ekki að nota jarðefnaeldsneyti, sag eða trjákurl til að hita ofninn og þar sem áformað er að nýta umframframleiðslu frá jarðhitaborholum sem annars færi til spillis býður þessi nálgun upp á betri nýtingu auðlinda. Með því að staðsetja þurrkofna nálægt borholum þarf ekki að ráðast í mikla innviðauppbyggingu, með tilheyrandi kostnaði og varmatapi. Gerðir voru einfaldaðir útreikningar á kolefnisspori framleiðslu íslensks timburs með jarðvarma og niðurstöðurnar bornar saman við greiningar á timbri frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjum. Niðurstöðurnar sýna að kolefnisspor við framleiðslu íslensks timburs (skógrækt, skógarhögg, flutningur að sögunarmyllu og vinnsla) er um 28 kg CO2-íg/m3 borðviðar. Meginhluti losunarinnar er við skógrækt og skógarhögg. Leiða má líkur að því að losunin sé nokkuð vanmetin en þegar á heildina er litið má áætla að kolefnisspor af framleiðslu íslensks borðviðar með þeim aðferðum sem lýst er í þessari skýrslu sé sambærilegt og kolefnisspor borðviðar sem framleitt er í nágrannalöndunum. Sé viðurinn notaður á Íslandi verður þar að auki komist hjá losun sem fylgir flutningi á timbri frá Norður-Evrópu til Íslands. Víða á landinu eru tækifæri til þess að nýta ónýtta jarðvarmaorku, bæði frá lághitasvæðum og háhitasvæðum. Hægt er að hámarka virði skógarafurða með því að selja sag eða kurl í stað þess að brenna, líkt og flestar aðrar þjóðir gera til að framleiða varmaorku. Mikill markaður er að myndast fyrir sag og kurl, en hægt er að þurrka hvort tveggja og flytja út sem orkugjafa (lífeldsneyti/biofuel). Við staðarval þarf að horfa til þess að til staðar þarf að vera jarðhiti, rafmagn, skógur og flutningsinnviðir. Helst er horft til svæða á Suðurlandsundirlendinu, t.d. Flúða og Ölfuss. Æskilegt er að sögunarmyllan sé á sama stað og þurrkunarbúnaður.

Sjá nánar: https://www.skogur.is/is/rannsoknir/throunarverkefni/radstefnur-og-fundir/fagradstefna-skograektar-2023