Snjóflóðasaga metin með aðferðum árhringjafræða
Ólafur Eggertsson, Skógræktinni, og Armelle Decaulne, Nantes-háskóla

Árhringir trjágróðurs geyma upplýsingar um ýmsa umhverfisþætti, meðal annars veðurfar (sumarhita) og skordýraplágur. Einnig „geyma“ trén upplýsingar um ýmsa skaða sem verða á trjám vegna ytri afla eins og grjóthruns og skriðufalla. Á sviði snjóflóðarannsókna hefur trjágróður verið notaður með góðum árangri til að endurskapa tíðni og umfang snjóflóða, t.d. í spænsku Pýreneafjöllunum og frönsku Ölpunum.

Okkar rannsóknir fóru fram í Fnjóskadal þar sem birkiskógar eru útbreiddir. Þar höfðu árhringjarannsóknir þegar farið fram á síðustu árum og verið byggðar upp meðalárhringjakúrfur sem ná aftur á 19 öld, sem er forsenda þess að hægt sé að stunda árhringjaaldursgreiningar á öðrum trjám frá sama svæði.

Við völdum okkur aurkeilu þar sem finna má ummerki snjóflóða, hallandi stofna, brotnar greinar og toppbrot trjáa. Sýni voru tekin af trjám, bæði sneiðar og borkjarnar, og viðbragðsvöxtur (reaction wood) og skaðar á trjám árhringjaaldursgreindir. Þannig gátum við fengið upplýsingar um tíðni og umfang snjóflóða síðustu áratuga sem fallið höfðu niður aurkeiluna.

Meira