Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, á aðild að grein í Nature um árhringjarannsóknir sem leiða í ljós nýja vitneskju um áhrif tveggja geimatburða sem urðu á jörðinni árin 774 og 993. Viðburðir þessir ollu snöggri hækkun á kolefni-14 í andrúmsloftinu. Nú hefur með hlutlægum hætti verið sýnt fram á áreiðanleika og nákvæmni aldursgreininga með aðferðum árhringjafræðinnar.
Skógræktin og Landgræðsla ríkisins fá stórt hlutverk í kolefnisbindingu samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eins og fram hefur komið hér á skogur.is. Fjallað er um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í öllum íslenskum fjölmiðlum. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir að vinna sé þegar hafin við að undirbúa kolefnisbindingu næstu tveggja ára. Efla þurfi rannsóknir á bindingu og losun og gróðrarstöðvar þurfi að auka framleiðslu.
Sænska blaðið Extraxt hefur birt ítarlega grein um skógrækt á Íslandi þar sem meðal annars er rætt um ForHot-verkefnið í Hveragerði og kynbætur Skógræktarinnar á lerki. Einn viðmælenda blaðsins er Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar.
Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum fram til 2030. Alls er gert ráð fyrir 6,8 milljörðum króna til aðgerða næstu fimm árin. Þar af renna fjórir milljarðar til kolefnisbindingarverkefna. Skógræktinni og Landgræðslu ríkisins hefur verið falið að efla með sér samstarf og vinna saman að aukinni kolefnisbindingu. Kolefnisbinding gæti orðið stærsta verkefni beggja þessara stofnana innan fárra ára ef áætlunin gengur eftir.
Auglýst eru til sölu á fasteignavef Morgunblaðsins bæjarhúsin að Stóra-Kollabæ í Fljótshlíð. Skilyrði fyrir kaupum eru að gerð verði áætlun um endurgerð húsanna í upprunalegri mynd og fyrirhugaða notkun þeirra. Merkar hleðslur eru í kjallara sem þykja varðveisluverðar og eldri hluti húsanna tengdist áður eldri torfbyggingum á staðnum. Afmörkuð hefur verið 2.000 fermetra lóð undir húsin (0,2 ha).