Breytingar hafa nú orðið á útgáfumálum Landssamtaka skógareigenda. Tímaritið Við skógareigendur kemur ekki lengur út heldur skrifa skógarbændur nú reglulega í Bændablaðið um ýmis skógarmálefni. Fyrsta greinin birtist í blaðinu 2. ágúst og þar skrifar Björn Halldórsson, sauðfjár- og skógarbóndi á Valþjófsstöðum í Núpasveit um sauðfjárbændur, samningana og skuldina við landið. Einnig er í sama tölublaði grein um samvinnu sunnlenskra skógarbænda um viðarnytjar.
Gróðursetning í Hekluskógum hefur gengið vel í sumar þrátt fyrir rysjótta tíð. Á vef verkefnisins kemur fram að gróðursett hafi verið í vor og fram á sumar og aftur verði tekið til við gróðursetningu í lok ágústmánaðar. Alls er stefnt að gróðursetningu rúmlega 300 þúsund birkiplantna í ár á athafnasvæði Hekluskóga.
Bændablaðið ræðir við Guðríði Baldvinsdóttur, skógfræðing og sauðfjárbónda Lóni Kelduhverfi, sem kannaði í meistaraverkefni sínu við LbhÍ áhrif sauðfjárbeitar á ungan lerkiskóg. Hún segir að skógarskjólið geri búpeningnum gott og að skógrækt ætti að vera hluti af öllum búrekstri.
Tugir þúsunda trjáplantna hafa verið gróðursettir í sjálfboðavinnu á Hafnarsandi í Ölfusi fyrir tilstuðlan Skógræktar- og uppgræðslufélags Þorlákshafnar og Ölfuss. Félagið boðar fólk til gróðursetningardaga á hverju sumri og þrír slíkir hafa verið skipulagðir í sumar. Vel var mætt til þess fyrsta 17. júlí.
Skógræktin varar við því að trjágróður sem skýlir ferðamannastaðnum við Skógafoss fyrir sterkum suðvestanáttum og vegfarendum fyrir sandfoki verði skertur. Jafnframt mælir Skógræktin með því að stuðlað verði að útbreiðslu birkis við Skógafoss, meðal annars til varnar áföllum vegna náttúruhamfara.