Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður ritar grein um loftslags í Bændablaðið sem kom út 11. janúar. Þar ræðir hann um mikilvægi kolefnisbindingar sem einna mest varði „uppgræðslu auðna neðan vissra hæðarmarka og viðgerðir á mikið rofnu gróðurlendi, tvö- til fjórföldun gróðursetningar í skógrækt, með birki og innfluttum trjátegundum“.
Alþjóðaefnahagsráðið, World Economic Forum, hefur birt stutt myndband um skógrækt á Íslandi og markmiðið að klæða tíunda hluta landsins með skógi. Samhliða hefur ráðið endurbirt á vef sínum umfjöllun Thomson Reuters Foundation þar sem rætt var við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra.
Rit Landbúnaðarháskóla Íslands hefur birt samantekt rannsókna á áhrifum Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu fólks. Sagt er frá mælingum sem benda til þess að brennisteinn í lofti hafi haft áhrif á vetrarskemmdir í furu á Fljótsdalshéraði. Ætla megi að þau áhrif megi rekja til mengunar frá gosinu. Áhrifin voru ekki mjög útbreidd og ollu ekki mælanlegum skemmdum til langframa.
Vera kann að uppgræðslu- og skógræktarsvæðið á Hólasandi norðan Mývatnssveitar megi eiga von á reglulegum sendingum næringarefna úr byggðinni á komandi árum. Talið er að lækka megi kostnað við fráveituframkvæmdir í sveitinni verulega með því að flytja salernisúrgang á Hólasand í stað þess að koma upp dýrum fráveitumannvirkjum með hreinsibúnaði.
Bandaríska landfræðifélagið National Geographic Society hefur nú birt á stuttmyndavef sínum myndbandið sem EUFORGEN gerði á liðnu sumri um nýskógrækt á Íslandi og aðlögun þess efniviðar sem notaður er í nytjaskógrækt hérlendis. Birting efnis á þessum vef ber ekki einungis vott um gæði myndbandsins heldur einnig vægi umfjöllunarefnisins.