Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, sagði frá uppbyggingarstarfi í Þórsmörk í þættinum Sjónmáli á Rás 1 þriðjudagsmorguninn 6. maí. Rætt var um samtökin Vini Þórsmerkur, stígagerð í Mörkinni og fyrirhugaða göngubrú yfir Markarfljót.
Nemendur í skógfræði á meistarastigi við sænska landbúnaðarháskólann SLU í Alnarp læra um kynningar- og markaðsmál í námi sínu og hafa meðal annars tekið fyrir evrópsku skógarvikuna og spurt sig hvernig hana megi kynna betur. Þau gerðu m.a. skemmtilegt myndband til að sýna hvað þau telja rétt að leggja áherslu á.
Nú eru skordýrin að vakna til lífsins eins og aðrar lífverur í íslenskri náttúru, meðal annars birkikemban sem er nýlegur skaðvaldur á íslenskum trjám. Tegundin er að breiðast út um landið en ólíklegt er að hún hafi veruleg áhrif á íslenska birkið önnur en sjónræn.
Aðalfundur Vina Þórsmerkur verður haldinn mánudagskvöldið 5. maí kl. 20 í Pálsstofu í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli. Auk venjulegra aðalfundarstarfa flytur Guðmundur V. Guðmundsson verkfræðingur erindi um göngubrú á Markarfljót.
Skógarmál eru lítilvæg í stjórnmálaumræðunni í Evrópu miðað við landbúnaðarmálin, jafnvel þótt skógar og skógarnytjar hafi veruleg áhrif á bæði umhverfi og efnahagslíf. Koma þarf skýrum og einföldum skilaboðum um skógarmál á framfæri. Þetta var meðal annars rætt á fundi evrópsks samstarfsvettvangs um kynningarmál á sviði skógarmála sem haldinn var í Berlín.