Kynbótaverkefni á alaskaösp hefur leitt í ljós að bestu einstaklingarnir geta vaxið um þrjá metra á fimm árum. Jafnframt er mikil viðarmyndun í stofni sem er mikilvægt fyrir til dæmis iðnviðarræktun. Morgunblaðið fjallaði á laugardag um þetta verkefni sem Halldór Sverrisson, sérfræðingur á Mógilsá, kynnti með veggspjaldi á nýafstaðinni fagráðstefnu skógræktar á Selfossi.
Skógræktarfélag Eyfirðinga og Garðyrkjufélag Eyjafjarðar standa fyrir fræðslufundi um rannsóknir og kynbætur á íslensku birki fimmtudagskvöldið 20. mars kl. 20 í Gömlu-Gróðrarstöðinni við Krókeyri á Akureyri. Á fundinum talar Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur.
Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands, sem haldinn var á Selfossi 11. mars, styður eindregið að ný náttúruverndarlög verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.
Í apríl hefjast framkvæmdir við smíði háhýsis í Noregi sem verður hæsta timburhús í heimi. Þetta verður 14 hæða íbúðablokk og burðarvirkið úr límtréseiningum.
Ríki og sveitarfélög í Noregi hafa markað sér þá stefnu að nota meira timbur í opinberar byggingar. Nú rísa skólabyggingar úr timbri fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, en líka háhýsi sem engum hefði dottið í hug fyrir nokkrum árum að reisa mætti úr timbri.