Hús finnsku náttúrumiðstöðvarinnar Haltia er fyrsta opinbera byggingin þar í landi sem reist er úr unnum gegnheilum viði. Allt nema grunnurinn og kjallarinn er smíðað eingöngu úr timbri. Húsið hannaði Rainer Mahlamäki. Markmið Haltia er að fara fyrir með góðu fordæmi, vera flaggskip viðarmannvirkjagerðar og innblástur byggingariðnaðarins í Finnlandi til að auka notkun viðar við smíði bæði opinberra bygginga og fjölbýlishúsa. Íslenskir fulltrúar sitja þessa dagana fund í Finnlandi um samvinnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja við eftirlit vegna timburreglugerðar Evrópusambandsins.
Algjör einhugur var um frumvarp til laga um nýja skógræktarstofnun þegar greinar frumvarpsins voru bornar upp til atkvæðagreiðslu í gær ásamt breytingartillögu eftir aðra umræðu. Aðeins er eftir að samþykkja málið sem lög með þriðju umræðu sem fer fram í dag. Þingfundur hefst kl. 10.30 og er málið það tólfta á dagskránni.
Ekki var tekist á um afgreiðslu frumvarps um nýja skógræktarstofnun þegar málið var tekið til annarrar umræðu á Alþingi í gærkvöldi. Mælt var fyrir nefndaráliti með einni breytingartillögu sem snertir markmið um ræktun skógar á 5% láglendis. Málið bíður nú atkvæðagreiðslu á þinginu.
Nýta má timbur úr íslenskum skógum á nýstárlegan hátt með því að sjóða timbrið, eima það eða vinna efni úr öskunni af því. Þannig má skapa óvænt verðmæti, til dæmis úr víði sem annars er nær ekkert nýttur. SAM-félagið, samtök skapandi fólks á Austurlandi, er með vinnustofu á verk­stæði Skógarafurða í Fljótsdal í samstarfi við bandaríska hönnunarverkefnið De­sign­ers & Forests. Fjallað var um þetta í fréttum Sjónvarps og rætt við vöru­hönnun­ar­nema og prófessor í hönnun.
Þessi dægrin er unnið að gróðursetningu í Hekluskóga. Fram kemur í nýrri frétt á vef verkefnisins að gróðursettar verði 200 þúsund birkiplöntur þetta vorið. Dreift hafi verið 220 tonnum af kjötmjöli á Hekluskógasvæðinu í vor en tilbúnum áburði verði dreift yfir um 500 hektara lands á ofanverðu starfsvæðinu í júní.