Flatarmál ræktaðra skóga er mest á Suðurlandi. Þar er tæpur þriðjungur allra ræktaðra skóga á landinu. Hlutfall ræktaðra skóga af flatarmáli viðkomandi landshluta er þó hæst á Austurlandi og ef aðeins er litið er litið til láglendis neðan 400 metra yfir sjó er skóglendið mest á Vesturlandi. Mesta flatarmál skógar í einstöku sveitarfélagi er á Fljótsdalshéraði. Allar þessar upplýsingar er að finna í nýuppfærðri skóglendisvefsjá á vef Skógræktar ríkisins.
Níutíu ár eru um þessar mundir frá því að kjarrlendi í Fjallshnjúk í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu var friðað með öllu. Þar hefur síðan verið skógrækt og er bændaskógurinn á Ytra-Fjalli sá fyrsti í sýslunni. Landið tók miklum breytingum með friðun, að sögn Indriða Ketilssonar, bónda á Ytra-Fjalli, en hann segir mikið verk að grisja í stórri hlíð. Rætt er við Indriða í Morgunblaðinu í dag.
Stýrihópur um sameiningu skógræktarstofnana ríkisins í eina nýja stofnun kom saman á miðvikudag. Haldið var áfram vinnu við stefnuskjal fyrir hina nýju stofnun og þá mælikvarða sem notaðir verða til að meta störf hennar og árangur. Einnig voru lagðar fram fyrstu hugmyndir að mögulegu skipuriti. Fyrsta umræða um lög um nýja skógræktarstofnun er á dagskrá Alþingis í dag.
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, hefur skipað Árna Bragason í embætti landgræðslustjóra til næstu fimm ára. Árni hefur frá árinu 2010 starfað sem forstjóri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar, Nordgen í Svíþjóð.
Fjárfesting í skógi gefur örugga ávöxtun til lengri og skemmri tíma að mati sérfræðinga ThinkAdvisor. Kosturinn við timburskóga sem fjárfestingarkost er sveigjanleikinn. Ólíkt öðrum landbúnaðarafurðum má uppskera timbur þegar markaðsverð er hagstætt en láta skóginn bíða þegar verðið er lágt. Loftslagsbreytingar ættu að gera timburskóga að enn betri fjárfestingarkosti frekar en hitt.