„Skógar rétt eins og fiskimiðin eru auðlind, lífræn innistæða sem þarf í senn að viðhalda og nýta skynsamlega,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri meðal annars í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Eftir rúman áratug fari skógarbændur að fá tekjur af skógum sínum sem munar um. Hann vonast líka til þess að Parísarráðstefnan verði til þess að skógræktarstarf fái meiri skilning.
Framkvæmdastjóri gróðrarstöðvarinnar Barra í Fellum segist vonast eftir því að framámenn standi við orð sín um kolefnisbindingu og annað þannig að auka þurfi gróðursetninguna á ný og fylla upp í það gat sem hefur myndast í uppbyggingu skógarauðlindarinnar. Fjallað var um starfsemi Barra í Landanum í Sjónvarpinu í gær.
Vinna við stefnumótun nýrrar sameinaðrar skógræktarstofnunar er komin vel á veg. Stýrihópur um sameininguna hittist á fundi í gær og þar var haldið áfram að vinna að stefnumótunarskjali sem ætti að liggja fyrir kringum næstu mánaðamót. Góðar vonir eru bundnar við að þær lagabreytingar sem gera þarf til að sameiningin geti orðið 1. júlí nái fram að ganga á Alþingi.
Hringrásir eru eðli lífríkisins á jörðinni. Þar sem framvinda er í snauðum vistkerfum hleður hringrásin smám saman utan á sig og efnin í hringrásinni aukast. Raunverulega má líta á það sem skyldu okkar að viðhalda hringrásum náttúrunnar og þróa leiðir til að nýta úrganginn með hagkvæmum hætti til ræktunar og landbóta. Samráðshópur um lífrænan úrgang berst fyrir framförum í þessum efnum og lokatakmarkið er að allur lífrænn úrgangur komist aftur út í hringrásina.
Starfsfólk Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sótti í síðustu viku tveggja daga námskeið í skógarnytjum og skógaruppeldi. Þátttakendur kváðust hafa mikinn áhuga á að nýta sér þessa nýju reynslu í starfi með börnum, hvort sem væri á leikskólum, grunnskólum eða í frístundastarfi.