Starfsmenn Skógræktar ríkisins gefa stofnuninni góða einkunn í könnun SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, þar sem útnefndar eru stofnanir ársins. Einkunnir stofnunarinnar eru flestar vel yfir meðallagi nema hvað einkunnir fyrir laun og jafnrétti eru nálægt meðallagi. Ef starfsmenn Skógræktar ríkisins væru fleiri en fimmtíu myndi stofnunin lenda í fjórða sæti stofnana af þeim stærðarflokki en þar var hún í 11. sæti í fyrra. Eftir væntanlega sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt verða starfsmenn nýrrar stofnunar hartnær 70 talsins.
Eftir sautján ára rannsóknarstarf á Nýju-Kaledóníu í suðvestanverðu Kyrrahafi hafa skoskir vísindamenn uppgötvað nýja trjátegund sem þó var fyrir framan nefið á þeim allan tímann. Tegundin er af sömu ættkvísl og apaþrautartré, Araucaria, sem einnig hafa verið kölluð apahrellir á íslensku. Hin nýuppgötvuðu tré eru hluti af mjög sérstæðri flóru Nýju-Kaledóníu sem nú er ógnað með stórfelldum áformum um nikkelvinnslu.
Taílendingar hyggjast stórauka skóggræðslu í landi sínu og rækta upp skóglendi á stórum svæðum þar sem náttúrlegum skógum hefur verið eytt. Eitt beittasta vopnið í þeirri baráttu verða fræbombur sem varpað verður úr flugvélum í milljónatali. Gert er ráð fyrir að árangurinn af slíkum lofthernaði verði um 70%
Skógardagurinn mikli verður með hefðbundnu sniði í ár, fjölbreyttur og skemmtilegur að vanda með mat og drykk, skemmtiatriðum, keppnum og fleiru og fleiru. Ýmislegt verður í boði fyrir börnin, tónlistar- og skemmtiatriði flutt á sviði, Íslandsmeistarakeppnin í skógarhöggi haldin og að venju heilgrillað naut af Héraði, austfirskt lambakjöt, pylsur, ketilkaffi og lummur og fleira. Dagskráin verður nánar kynnt í byrjun júní.
Gönguleiðin um Fimmvörðuháls og Laugaveginn er meðal tuttugu leiða sem nafntogað útivistarfólk útnefndi bestu gönguleiðir heims fyrir bandaríska landfræðitímaritið National Geographic. Skógurinn á Þórsmörk er þjóðskógur. Honum var bjargað fyrir rúmum 80 árum þegar Skógrækt ríkisins tók að sér að friða hann, auka útbreiðslu hans á ný og hlúa að svæðinu.