Myndarleg timburstæða blasir nú við vegfarendum sem aka þjóðveg 1 um Svignaskarð í Borgarfirði. Í stæðunni eru 186 rúmmetrar af timbri sem fékkst með grisjun tæplega hálfrar aldar gamallar furu í Daníelslundi. Stæðan er mjög myndarleg og hæð hennar rúmlega tveir skógræktarstjórar með uppréttan handlegg.
Fimm verkefni í skógum Skógræktar ríkisins á Suðurlandi hljóta styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á þessu ári. Lagfærðir verða göngustígar við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri, áningarstaður í Haukadalsskógi lagfærður, komið upp salernisaðstöðu við Hjálparfoss og unnið að viðhaldi og merkingum gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu.
Fyrirtækið Selskógar ehf í Stapaseli í Stafholtstungum hefur ákveðið að flytja inn frá Kína heilan gám af vindbrjótum sem veitt geta skjól í margs konar ræktun, meðal annars í skógrækt. Ábúendur í Stapaseli ætla sjálfir að nýta vindbrjótana við skógrækt sína, til dæmis við ræktun þins til jólatrjáa. Frá þessu er sagt í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni.
Eitt allrasverasta tré landsins skemmdist mikið í stórviðri sem gekk yfir Hallormsstaðaskóg í síðustu viku. Tréð er ríflega aldargamall fjallaþinur. Það var þrístofna og mjög vinsælt klifurtré meðal ungra gesta í trjásafninu í Mörkinni Hallormsstað. Fleiri tré brotnuðu í safninu og úti í skógi en öll eiga það sammerkt að vera tví- eða þrístofna sem gerir þau veikari fyrir hvassviðrum.
Guðríður Baldvinsdóttir, sauðfjárbóndi, skógfræðingur og meistaranemi við LbhÍ, segist lengi hafa beðið eftir því að einhver réðist í það verkefni að rannsaka sauðfjárbeit í skógi. Að lokum hafi hún gefist upp á að bíða og ákveðið að gera þetta sjálf. Hún greinir frá verkefninu í viðtali við Bændablaðið í dag. Frumniðurstöður hennar eru að sauðfé sækist ekki eftir því að bíta lerki.