Fjórði fyrirlestrafundur samstarfshóps um ár jarðvegs verður haldinn á veitingastaðnum Flórunni í Grasagarðinum Laugardal í Reykjavík miðvikudaginn 9. september. Björn H. Barkarson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, fjallar um vægi jarðvegs í grænu hagkerfi, Jón Örvar G. Jónsson, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands um fjölþætt virði jarðvegs og Björn Guðbrandur Jónsson, framkvæmdastjóri GFF, um hagræna þætti við nýtingu lífrænna úrgangsefna til uppgræðslu í landnámi Ingólfs.
Gamla íbúðarhúsið í Jórvík í Breiðdal hefur nú fengið nýjan svip. Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurgerð hússins sem ásamt jörðinni er í eigu Skógræktar ríkisins. Gert hefur verið við burðarvirki hússins, skipt um alla glugga ásamt klæðningu á þaki og veggjum. Stefnt er að því að húsið og sambyggt fjós líti út eftir endurbæturnar eins og var þegar íbúðarhúsið var reist árið 1928. Hugmyndir eru uppi um að Jórvíkurbærinn verði leigður út sem orlofshús að endurbótum loknum.
Í ætt barrtrjáa er að finna einhverjar stærstu, hávöxnustu og langlífustu lífverur jarðarinnar. Alþekkt eru risastóru rauðviðartrén í Kaliforníu, stærstu tré í heimi. En nú er svo komið að barrtrén þurfa hjálp. Í Skotlandi hefur verið tekið frá landsvæði þar sem meiningin er að verði griðastaður fyrir barrviðartegundir sem nú eru í útrýmingarhættu.
Nýlokið er á Selfossi alþjóðlegri ráðstefnu um loftslagsbreytingar og þróunarmöguleika skógarplantna. Þar var fjallað um loftslagsbreytingar og hvaða möguleika skógartré hafa til að þróast og laga sig að breytingunum. Í tengslum við ráðstefnuna stendur nú yfir tveggja daga námskeið eða vinnusmiðja um þessi málefni. Rætt var við Aðalstein Sigurgeirsson, forstöðumann á Mógilsá, í Samfélaginu á Rás 1 í dag.
Rannsókn sem fjallað er um í nýrri grein í vefritinu Icelandic Agricultural Sciences bendir til að orkuarðsemi lífrænna kúabúa á Íslandi sé meiri en hefðbundinna kúabúa. Önnur ný grein í ritinu fjallar um samfélög þráðorma í Surtsey hálfri öld eftir að eyjan myndaðist. Þráðormar gegna mikilvægu hlutverki í frumframvindu vistkerfa og rannsóknin er mikilvægt innlegg í grunnrannsóknir á jarðvegslífi á Íslandi. Slíkar rannsóknir eru fágætar hérlendis en tveir vísindamenn á sviði skógvísinda eru meðal höfunda greinarinnar.