Heimsbyggðin þarf að vita að skógar heimsins eru meira en bara tré. Í skógunum felast ómæld tækifæri sem geta skipt sköpum í baráttunni við hungur, baráttunni fyrir betra lífi fólks og baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þetta er niðurstaða fjórtándu heimsráðstefnunnar um skóga sem lauk í Durban í Suður-Afríku á föstudag. Í yfirlýsingu sem samþykkt var á ráðstefnunni er áhersla lögð á aukna fræðslu um skóga, fjárfestingu í menntun og eflda umræðu um mikilvægt hlutverk skóganna fyrir lífið á jörðinni.
Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins, veitti fræðslu um verkefnið Lesið í skóginn á þingi Kennarasambands Austurlands sem fram fór á Seyðisfirði á föstudaginn var. Kennararnir eystra voru á því að nú væri sóknarfæri með nýju námskránni að samþætta námið og að tengja hefðbundna kennslu við skóg og náttúru með útinámi.
Hæsta tré landsins vekur alltaf athygli. Í Mannlega þættinum á Rás 1 í gær var rætt við Hrein Óskarsson, skógarvörð á Suðurlandi, um sitkagrenitréð á Kirkjubæjarklaustri sem er um það bil að ná 27 metra hæð. Rætt var vítt og breitt um þá miklu möguleika sem felast í skógrækt hér á landi og hvað skógarnir eru farnir að gefa mikið af sér.
Á heimsráðstefnu skógræktar sem lýkur í dag í Durban í Suður-Afríku voru í gær kunngerð úrslit í Treehousing, alþjóðlegri samkeppni um hönnun timburbygginga. Ríflega 200 verkefni voru send inn í keppnina frá 60 löndum. Margar nýstárlegar og framsæknar hugmyndir voru þar á meðal. Greinilegt er að timbur nýtur vaxandi hylli sem byggingarefni í heiminum enda hentar það vel í stað stáls og steinsteypu nú þegar samfélög jarðarinnar vinna að því að koma sér saman um sameiginleg markmið um sjálfbærni.
Mikil og vönduð vinna liggur að baki þeim tölum sem aðildarþjóðir FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, leggja inn í skýrsluhald um ástand skóganna í heiminum. Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, tekur saman tölur um Ísland og safnar þannig saman á einn stað helstu staðreyndum um þróun íslensku skóganna.