Þessa dagana eru birkifræ eru að mestu orðin þroskuð á trjám og má safna fræi fram í lok október eða lengur eftir því hvernig tíðarfar verður. Hentugasti söfnunartíminn er á þurrum sólríkum haustdögum þegar lauf er að mestu fallið af trjánum, en fræin sitja eftir. Sökum þess hversu seint voraði í ár þroskaðist birkifræ heldur seinna en oft áður. Þetta segir í frétt á vef Hekluskóga og þar eru landsmenn hvattir til að safna fræi og senda til verkefnisins.
Jón Loftsson skógræktarstjóri lætur af störfum um næstu áramót fyrir aldurs sakir. Hann hefur gegnt embætti skógræktarstjóra frá 1. janúar 1990. Í viðtali í Morgunblaðinu í dag reifar Jón stuttlega þær breytingar sem honum þykja stærstar hafa orðið á árum hans í embætti svo sem flutning Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshérað, tilkomu landshlutaverkefna í skógrækt og það mikla starf sem fram undan er við grisjun í skógum landsins, meðal annars í Héraðsskógum sem byrjað var að gróðursetja um 1990.
Einn færasti sérfræðingur Noregs í hönnun og lagningu skógarvega kenndi í síðustu viku á námskeiði sem haldið var um þessi efni á Hvanneyri. Þátttakendur fengu að sjá raunveruleg dæmi um skógarvegi þegar þeir skoðuðu veglagningar í Stálpastaðaskógi í Skorradal.
Einbýlishús í Hallormsstaðaskógi hefur nú verið klætt með 25 m óköntuðm borðum úr sitkagreni. Efnið var flett úr timbri sem fékkst með grisjun tveggja lítilla reita frá 1958 og 1975. Auk veggklæðningar eru grindverk að hluta til umhverfis húsið smíðuð úr óköntuðu greni. Töluvert fellur nú til í íslenskum skógum af efni sem hentar í slíka klæðningu, einkum sitkagreni á Suður- og Vesturlandi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir laust embætti skógræktarstjóra. Konur jafnt sem karlar eru hvattar til að sækja um stöðuna. Valnefnd metur hæfni og hæfi umsækjenda og skipað verður í embættið til fimm ára. Komi til sameiningar skógræktarstarfs á vegum ríkisins eins og áformað er mun nýr skógræktarstjóri vinna að framfylgd þess verkefnis. Umsóknarfrestur er til 19. október.