Á evrópsku skógarvikunni, Silva 2015, sem hófst í dag í Engelberg í Sviss, er fjallað um verðmæti skóga frá ýmsum sjónarhornum. Metin verða gildi og verðmæti þeirrar fjölbreytilegu þjónustu sem skógarnir veita og jafnframt að skoða hvað skógarnir geta lagt til græna hagkerfisins.
Auk viðamikillar skýrslu um ástand skóga Evrópu komu út tvær mikilvægar árangurs- og áfangaskýrslur á sjöunda ráðherrafundi Forest Europe sem haldinn var í Madríd 20.-21. október. Í skýrslum þessum er litið á hvernig gengið hefur að fylgja eftir þeim markmiðum sem ráðherrar skógarmála hafa sett álfunni á fyrri ráðherrafundum Forest Europe.
Örfyrirlestraröð á Kaffi Loka í Reykjavík í tilefni af ári jarðvegs 2015 lýkur miðvikudaginn 4. nóvember með því að fjallað verður um mikilvægi moldarinnar í borgarvistkerfum. Augum verður beint að vistkerfum í þéttbýli og fjallað um ýmislegt þeim tengt. Til dæmis verður rætt hvaða áhrif aukinn trjágróður hefur í þéttbýli á t.d. loftgæði, vatnsmiðlun og kolefnisbindingu. Fundurinn stendur í klukkutíma og hefst kl. 12.
Það er tilkomumikil sjón og nokkuð óvenjuleg hérlendis að mæta þremur fullhlöðnum timburbílum á förnum vegi. Þetta getur þó hent þessa dagana því nú vinnur verktakinn J. Hlíðdal ehf. að því að flytja grisjunarvið úr norðlenskum skógum til járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga.
Nú þegar lauf er fallið af birkinu á Þórsmörk verður einirinn í skógarbotninum áberandi. Athygli vekur hversu margar af fræplöntum einisins eru uppréttar og nokkuð beinvaxnar. Líklegt má telja að skýringanna megi leita í erfðaþáttum en þetta væri verðugt rannsóknarefni fyrir trjáerfðafræðinga.