Umhverfis- og auðlindaráðherra boðar til IX. umhverfisþings á Grand Hótel í Reykjavík föstudaginn 9. október og fjallar þingið að þessu sinni um umhverfis- og náttúruvernd. Susan Davies, forstjóri Scottish Natural Heritage, verður heiðursgestur þingsins, heldur erindi og svarar fyrirspurnum úr sal. Tvær málstofur verða haldnar, önnur um ferðamennsku í náttúru Íslands og hin um friðlýst svæði.
Gamlir hundrað króna seðlar eru til umræðu á Baksviði Morgunblaðsins í dag í tengslum við skógrækt í landinu. Birtar eru myndir af gömlum seðlum sem sýna mikið fjársafn renna um skarðið ofan við hamarinn Bringu í Þjórsárdal og vísað til þess að sumum finnist nóg um þann skóg sem upp er vaxinn í skarðinu. Skógarvörðurinn á Suðurlandi vill heldur miða við það gróðurríka ástand sem var í Þjórsárdal við landnám en það bágborna ástand þess sem var á fyrri hluta 20. aldar.
Tré ársins 2015 var útnefnt við hátíðlega athöfn laugardaginn 26. september. Að þessu sinni varð fyrir valinu reynitré (Sorbus aucuparia) sem stendur í Sandfelli í Öræfum. Tréð gróðursetti Þorbjörg Guðdís Oddbergsdóttir árið 1923. Hún hafði fengið það sent frá vinkonu sinni á Egilsstöðum semhafði fengið það í gróðrarstöðinni á Hallormsstað hjá Guttormi Pálssyni skógarverði.
Í tilraun sem sett hefur verið út á Höfða á Fljótsdalshéraði á að bera saman gæði og styrkleika girðingarstaura úr íslenskum viði  og innfluttra staura. Reynt verður að varpa ljósi á hvaða innlenda hráefni hentar best til stauragerðar. Stauraframleiðsla er eitt af því sem aukið getur verðmæti grisjunarviðar.
Starfshópur um sameiningu skógræktarstarfs ríkisins leggur til við umhverfis- og auðlindaráðherra að það verði sameinað í eina stofnun. Um er að ræða starf Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt, auk umsjónar með Hekluskógum.