Skógar Evrópu hafa breiðst út undanfarinn aldarfjórðung og ná nú yfir 215 milljónir hektara sem nemur þriðjungi af öllu landi álfunnar. Og skógarnir stækka enn. Þetta er meðal niðurstaðna nýjustu skýrslu Forest Europe um ástand skóga Evrópu sem er nýkomin út. Fjöldi þeirra Evrópulanda sem hafa sett sér landsáætlanir um skógrækt hefur þrefaldast frá árinu 2007. Ísland er í hópi þeirra landa Evrópu sem enn hafa ekki sett sér slíka áætlun.
Skógrækt getur dregið úr áhrifum ýmissa náttúruhamfara, sérstaklega þeirra sem tengjast eldgosum og jökulhlaupum. Um þetta er fjallað í Morgunblaðinu í dag og rætt við Úlf Óskarsson, lektor við LbhÍ, sem segir að skógi- eða kjarrivaxið land myndi líklega standast betur hamfarir á við Skaftárhlaup en land sem vaxið væri lággróðri eingöngu. Þetta sama gildir um öskufall eins og sýndi sig í Eyjafjallajökulsgosinu 2010. Eitt meginmarkmiðið með Hekluskógaverkefninu er að rækta birkiskóga sem koma í veg fyrir uppblástur eftir öskugos úr Heklu.
Nokkrir íslenskir skógvísindamenn voru á ferð í Pódalnum á Ítalíu í síðustu viku og skoðuðu þá meðal annars hraðrækt á ösp sem gefur nytjavið á undraskömmum tíma. Með kynbótum og öflugri ræktun er hægt að fá uppskeru af bæði kurlviði og smíðaviði mun fyrr en í hefðbundinni skógrækt. Jafnvel þótt öspin vaxi ekki eins hratt á Íslandi og í Pódalnum geta aspartegundir gefið af sér hratt og vel bæði iðnvið og smíðavið hérlendis.
Lið Rangárþings ytra sigraði lið Strandabyggðar í Útsvari í Sjónvarpinu á föstudag. Leikar fóru 73-71. Hreinn Óskarsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi, er einn liðsmanna Rangárþings ytra.
Á Bretlandi er mikill uppskerutími í skógunum þessi árin því á sjöunda áratug síðustu aldar var geysimikið gróðursett þar í landi, mest um 66 milljónir trjáplantna á ári. Timburiðnaðurinn blómstrar núna en á eftir að verða fyrir bakslagi síðar því stórlega dró úr gróðursetningu undir lok liðinnar aldar. Ekki ósvipað bakslag getur líka komið í timburiðnaðinn hér á landi í fyllingu tímans ef framlög til nýskógræktar fara ekki að aukast á ný.