Í Kjarnaskógi á Akureyri hefur verið útbúið nýtt samkomusvæði með grillhúsi og leiktækjum í mjög fallegu umhverfi. Svæðið heitir Birkivöllur en auk myndarlegra birkitrjáa eru þar ýmsar fleiri trjátegundir, til dæmis falleg tré af gráelri og síberíuþin svo eitthvað sé nefnt. Í dag komu nemendur úr Giljaskóla ásamt kennurum sínum til að reyna hjólastólarólu sem sett hafði verið upp á Birkivelli.
Töluverð umræða varð á samfélagsmiðlum í gær um þau áform yfirvalda í Dalvíkurbyggð að eyða lúpínu, kerfli og njóla, meðal annars með eiturefninu Roundup sem óttast er að geti valdið krabbameini í fólki. Frá þessu var sagt í Fréttablaðinu og í dag er málið tekið upp í leiðara blaðsins. Leiðarahöfundur telur að mögulega ætti Dalvíkurbyggð að endurhugsa áætlanir sínar um verndun jarðvegshnignunar og velta fyrir sér hvort öflugri gróður myndi ekki sóma sér betur.
Í ágústmánuði fóru nokkrir skógfræðinemar frá Landbúnaðarháskóla Íslands í hringferð um landið til að skoða skóga og skógartengda starfsemi. Með þeim í för var Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor og brautarstjóri skógfræði- og landgræðslubrautar við skólann. Nemendurnir unnu fróðlega skýrslu um ferðina og þar kennir margra trjáa.
Tvö verkefni hlutu á dögunum verðlaun sem veitt eru í Bandaríkjunum fyrir hönnun timburháhýsa. Vinningshafarnir deila með sér verðlaunafé sem nemur þremur milljónum dollara, hartnær 380 milljónum íslenskra króna. Fénu skal varið til áframhaldandi hönnunar og þróunar verðlaunatillagnanna tveggja, háhýsa sem rísa eiga á Manhattan í New York og í Portland í Oregon-ríki. Áskilið var að byggingar sem sendar yrðu inn í keppnina væru að minnsta kosti 24 metra háar og að meginbyggingarefni þeirra væri límtré.
Enginn einn þáttur á að skila meiru í aðgerðaráætlun stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu. Kolefnisbinding í íslenskum skógum hefur reynst heldur meiri en gert var ráð fyrir í áætlunum. Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtali við Arnór Snorrason, sérfræðing á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, sem flutt var í þættinum Samfélaginu á Rás 1 í gær.