Framkvæmdir eru nú hafnar á lóð nýs þjónustuhúss í Laugarvatnsskógi. Skógur hefur verið ruddur af byggingarstaðnum og jarðvinna verið boðin út. Stefnt er að því að reisa burðarvirki hússins næsta vor og að þessi nýi áningarstaður verði tilbúinn um haustið. Húsið verður eingöngu smíðað úr íslenskum viði og hæstu trén sem felld hafa verið til að afla viðar í burðarvirkið voru 22 metra há.
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Hekluskóga, og Þórunn Pétursdóttir, landgræðsluvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins, skrifa grein um endurhæfingu gróðurvistkerfa á Íslandi í veglegt rit, Living Land, sem nýkomið er út á vegum UNCCD, eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Í ritinu eru tugir frásagna af árangursríkum landbótaverkefnum víðs vegar um heiminn.
Morgunblaðið rifjar í dag upp í dálki sínum, „Þetta gerðist“ að hinn 3. nóvember 1945 hafi Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, komið heim úr þriggja mánaða ferð til Alaska og haft meðferðis fræ af lúpínu sem óx þar „villt um allt,“ eins og hann sagði í viðtali við blaðið. Þetta muni vera upphaf lúpínuræktar hérlendis.
Víðlesnasta dagblað Hollands, De Trouw, birti á dögunum viðtal við Aðalstein Sigurgeirsson, forstöðumann Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, og Björn Guðbrand Jónsson, framkvæmdastjóra samtakanna Gróðurs fyrir fólk. Í viðtalinu er rætt um gróðurfarssögu Íslands frá landnámi og þá skógrækt sem hér hefur verið stunduð í landinu í rúma öld.
Sænska sendiráðið og IKEA bjóða til málþings um hagkvæma og umhverfisvæna byggingarkosti í þéttbýli miðvikudaginn 4. nóvember á veitingastað IKEA að Kauptúni 4 í Garðabæ. Húsið verður opnað kl. 8.30 og dagskrá hefst kl. 9.00.