Málþing um Hekluskóga sem haldið var í Gunnarsholti 16. apríl tókst með ágætum og var vel sótt. Tilefni málþingsins var að tíu ár eru nú liðin frá því að undirbúningur að verkefninu hófst. Erindin sem flutt voru á málþinginu eru nú aðgengileg á vefnum. Í sumar verða um 280 þúsund plöntur gróðursettar á vegum Hekluskóga og áburðardreifing aukin, bæði með kjötmjöli og tilbúnum áburði. Þetta kemur fram á vef Hekluskóga.
Ýmislegur ávinningur gæti fylgt kynbótum á fjallaþin til ræktunar á jólatrjám innanlands. Þetta segir Brynjar Skúlason skógfræðingur í Morgunblaðinu í dag. Ekki aðeins myndi sparast talsverður gjaldeyrir með minni innflutningi og störf skapast í skógrækt heldur er þetta líka heilbrigðismál fyrir skógrækt. Nokkur áhætta fylgir því að flytja inn hátt í 40 þúsund jólatré á ári með möguleikum á margvíslegum sjúkdómum og hugsanlega öðrum skaðvöldum sem skaða gróður.
Þessa dagana stendur yfir námskeið á Reykjum í Ölfusi þar sem fólk frá sjö Evrópulöndum lærir að tálga í tré. Námskeiðið nýtur styrks frá Leonardo-áætlun Evrópusambandsins og kallast á ensku „Teach Me Wood“.
Sjálfboðaliðar frá samtökunum Þórsmörk Trail Volunteers eru meðal vorboðanna ár hvert og undanfarna daga hefur fyrsti sjálfboðaliðahópur sumarsins verið að störfum við Hjálparfoss í Þjórsárdal. Fram undan eru viðhalds- og uppbyggingarverkefni á Þórsmörk og Laugaveginum, gönguleiðinni upp í Landmannalaugar.
Tilbúinn skógur veitir hreinu lofti inn í sýningarskála Austurríkis á World Expo 2015 heimssýningunni í Mílanó sem hefst 1. maí og stendur til októberloka. Orka fyrir skálann er framleidd með nýjustu sólarorkutækni og skógurinn gefur afurðir sem matreiddar verða á veitingastað í skálanum. Skálinn gefur hugmynd um hvernig nýta má tré og annan gróður til að bæta lífsskilyrði fólks í þéttbýli framtíðarinnar.