Tvöfalt til fimmfalt meiri skóg þarf að rækta á landinu en nú er gert ef mæta á með íslenskum viði þeirri þörf fyrir iðnvið sem líklegt er að verði á öldinni. Hátt landverð, í öðru lagi kostnaður, tafir og áhætta vegna opinberra leyfa og í þriðja lagi ræktunaráhætta eru helstu hindranirnar fyrir fjárfestingum í skógrækt hérlendis, segir Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur á Mógilsá, í viðtali við Bændablaðið sem kemur út í dag.
Norræna lífhagkerfið (Nordic Bioeconomy) og lífhagkerfi norðurslóða (Arctic Bioeconomy) verður til umfjöllunar á ráðstefnu sem haldin verður miðvikudaginn 25. júní á Hótel Selfossi. Um þessi mál verður fjallað frá margvíslegum sjónarhornum.
Skógarvörðurinn á Vöglum í Fnjóskadal gerir ráð fyrir því að hægt verði að nýta viðinn af stórum hluta þeirra furutrjáa sem brotnuðu í snjóflóði í Þórðarstaðaskógi í vetur. Mest skemmdist af stafafuru en einnig nokkuð af rauðgreni, blágreni og birki.
Mikið ber á brúnu birki á höfuðborgarsvæðinu og víðar þessa dagana. Fólk hefur af þessu áhyggjur og vill vita hverju sæti. Skaðvaldurinn er birkikemba. Lirfan ætti að vera byrjuð að púpa sig og trén gætu klætt af sér brúna litinn með nýjum sprotum ef aðrar fiðrildalirfur valda ekki miklu tjóni.
Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, fagnar því hvað lúpínan hefur dreift sér mikið á höfuðborgarsvæðinu. Hún hafi stöðvað moldrok af foksvæðum í grennd við borgina og nú sé hún að hörfa úr Heiðmörk. Í staðinn taki við gras- og blómlendi og skógur. Stöð 2 fjallaði um þetta í sjónvarpsfrétt um liðna helgi.