Rætt var við Halldór Sverrisson, sérfræðing hjá Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, í þættinum Sjónmáli á Rás 1 þriðjudagsmorguninn 10. júní. Tilefnið var meðal annars útkoma nýju bókarinnar um skaðvalda á trjágróðri, Heilbrigði trjágróðurs. Meðal annars er rætt um fiðrildalirfurnar sem eru atkvæðamestar á trjánum snemmsumars.
Um þessar mundir er því fagnað að sjötíu ár eru liðin frá því að farið var að beita birninum Smokey í baráttunni við skógarelda. Nú orðið berst Smokey gegn öllum náttúrueldum. Tvö ný myndbönd hafa verið gerð í tilefni afmælisins. Íslendingar þurfa líka að huga að þessari hættu og nú er starfandi stýrihópur um brunavarnir í skógrækt.
Guðmundur Aðalsteinsson, skógarbóndi í Hróarstungu á Héraði, hefur einbeitt sér að ræktun ánamaðka, lætur þá éta pappír og breyta í áburð. Hann hefur áhyggjur af því að ánamaðkur sé að hverfa úr íslenskum túnum. Ríkisútvarpið sagði frá þessu í fréttum Sjónvarps.
Í Morgunblaðinu í dag, 5. júní, er áfram fjallað um gömul tré með vísun í 106 ára gamlan silfurreyni við Grettisgötu í Reykjavík sem til stendur að fella vegna byggingaframkvæmda. Agnes Bragadóttir skrifar fréttaskýringu þar sem meðal annars er rætt við Brynjólf Jónsson, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands. Hann segir að allt yrði brjálað í Berlín ef til stæði að fella svona tré þar.
Í dag er alþjóðlegur dagur umhverfisins. Evrópska ráðherraráðið um verndun skóga, Forest Europe, bendir á það í tilefni dagsins að útilokað sé að halda slíkan dag án þess að skógar séu teknir með í reikninginn.