Skógrækt er á allra vörum eftir að ný „Brynhildarskýrsla“ var kynnt í liðinni viku. Samkvæmt skýrslunni gæti árleg nettóbinding íslenskra skóga orðið um ein milljón tonna um miðja öldina, mælt í koltvísýringsígildum, ef gróðursett væri fjórum sinnum meira á hverju ári en nú er gert. En ekki dugar það eitt að tala um hlutina. Hefjast þarf handa.
Viður geymir fingraför náttúrunnar og því tengjumst við timburhúsum betur en húsum úr stáli og steinsteypu. Þetta segir kanadíski arkitektinn Michael Green sem hefur séð fólk faðma að sér timbursúlu í húsum sem hann hefur teiknað en aldrei stál- eða steypusúlu. Hann tekur nú þátt í hönnun háhýsa úr timbri og segir frá þeim í TED-fyrirlestri.
Út er komin endurskoðuð útgáfa bæklings Skógræktarinnar og Skipulagsstofnunar um skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Bæklingurinn nýtist sveitarfélögum vel við skipulag landnotkunar og treystir stöðu skóga og skógræktar í skipulagsstarfi.
Mosfellsbær auglýsir laust til umsóknar starf verkefnastjóra garðyrkju og skógræktar í þjónustustöð sveitarfélagsins. Starfsmaðurinn á m.a. að hafa umsjón með skógræktarverkefnum í samstarfi við Skógræktarfélag Mosfellsbæjar.
Sex manna teymi Skógræktarinnar og Landssamtaka skógareigenda um úrvinnslu- og markaðsmál hittist á sínum fyrsta fundi á Hallormsstað í síðustu viku. Á föstudag skrifuðu Landssamtök skógareigenda undir samning við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga um styrk til stofnunar rekstrarfélags um markaðsmál skógarafurða.