Sú breyting hefur verið gerð við útgáfu tímaritsins Icelandic Agricultural Sciences að nú fá allar greinar ritsins rafrænt doi-númer sem þýðir að þær eru formlega birtar um leið og þær koma út á netið. Þetta er stór áfangi hjá ritinu og gerir það enn sýnilegra um allan heim og aðgang erlendra sem innlendra fræðimanna að því auðveldari. Ritið verður einungis rafrænt héðan í frá.
Indriði Indriðason, fyrrverandi skógarvörður á Tumastöðum í Fljótshlíð, lést 7. febrúar á 83. aldursári. Indriði starfaði mestalla starfsævina hjá Skógrækt ríkisins og stýrði lengst af gróðrarstöðinni á Tumastöðum í Fljótshlíð. Framlag hans til skógræktar á Íslandi er ómetanlegt.
Frá árinu 2006 hefur verið unnið að forvitnilegu verkefni í Övertorneå í Svíþjóð, að skapa tækifæri fyrir skógareigendur að auka vöxtinn í skógum sínum og þar með möguleikann á að selja útblásturskvóta á móti aukinni bindingu í skóginum. Íslenskir skógareigendur gætu gert allt kolefni í sínum skógum að markaðsvöru, ekki einungis það sem fæst með vaxtaraukandi aðgerðum.
Fimm rannsóknarverkefni sem tengjast skógvísindum hlutu í gær veglega styrki úr orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar. Viðfangsefnin eru fjölbreytileg, kolefnisuppsöfnun í stöðuvötnum, umhverfisbreytingar og búskapur næringarefna í jarðvegi, loftslagsáhrif skógræktar á framræstu mýrlendi, vistkerfisbreytingar á hálendi norðan Langhjökuls og uppruni og erfðabreytileiki blæaspar á Íslandi. Hæsti styrkurinn nemur 2,7 milljónum króna.
Vegurinn inn með Skorradalsvatni er stórhættulegur á hálfs annars kílómetra kafla, á milli Vatnshorns og Hvamms, að mati Valdimars Reynissonar, skógarvarðar á Vesturlandi, sem býr í Hvammi. Mikil hjólför eru nú í lélegum ofaníburði og ástand vegarins versnar svo þegar þau frjósa. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.