Garðyrkjufélag Íslands og Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra halda málþing um trjágróður í þéttbýli í sal GÍ að Síðumúla 1, Reykjavík, föstudaginn 27. febrúar. Rætt verður um aukinn trjágróður í þéttbýli, kosti trjánna í byggðinni, ýmsar ógnir sem að trjánum steðja, vandamálin sem leysa þarf þegar rækta á tré við erfiðar aðstæður við götur, um val á tegundum og fleira og fleira.
Skógræktarmál voru rædd í tæpar 40 mínútur á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 3. febrúar. Njáll Trausti Friðbertsson bæjarfulltrúi (S) vakti máls á því að enn væri ólokið gróðursetningu í græna trefilinn í kringum byggðina á Akureyri. Ekki kostaði nema eins og eitt einbýlishús að ljúka verkinu á sjö árum og árlegt framlag yrði á við verð jepplings. Ávinningurinn yrði meira skjól í bænum, útivistarsvæði fyrir öll bæjarhverfi, kolefnisbinding og tekjur af skóginum þegar tímar líða.
Í klónatilraun með alaskaösp sem gróðursett var á Höfða á Völlum á Héraði árið 2000 kom í ljós tífaldur munur á meðalrúmmáli vaxtarmesta og vaxtarminnsta klónsins. Klónar frá hafræna loftslagsbeltinu reyndust bestir. Fjallað er um tilraunina í nýútkomnu Riti Mógilsár.
Vísindamenn við Oxford-háskólann á Englandi hafa lýst því yfir eftir eins árs yfirlegu og rannsóknir að þeir hafi fundið vænlegasta tækið sem mannkynið hefur tiltækt til að ná koltvísýringi úr andrúmsloftinu og ná tökum á hlýnun jarðar. Tré.
Í janúar lauk framkvæmdum við nýja skemmu á starfstöð Skógræktar ríkisins á Skriðufelli í Þjórsárdal. Skemman leysir af hólmi lélega skúra sem áður hýstu smærri vélar og annan búnað og nú má vinna ýmis verk innan dyra sem áður varð að vinna úti. Stærri vélar komast líka inn í skemmuna til viðhalds og viðgerða. Skemman gjörbreytir þannig aðstöðu starfsfólks í Þjórsárdal og gefur betri möguleika til að vinna verðmæti úr afurðum skógarins.