Óskar Grönholm Einarsson er fyrsti Íslendingurinn sem lýkur námi í skógarvélafræðum. Óskar er nú kominn til starfa hjá Kristjáni Má Magnússyni skógarverktaka og vinnur þessa dagana að rjóðurfellingu stafafurureits í Haukadal. Hann segir veturinn góðan tíma til vélavinnu í skógi.
Í undirbúningi er ráðstefna í marsmánuði þar sem rætt verður um nýtingu lífræns úrgangs til uppgræðslu og annarrar ræktunar. Í undirbúningshópnum sitja fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtaka, fyrirtækja í úrgangsiðnaði, Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Ýmsir möguleikar eru til nýtingar lífræns úrgangs í ræktun, ekki síst  í skógrækt og skóggræðslu.
Út er komin á vegum Skógræktar ríkisins og Skipulagsstofnun endurskoðuð útgáfa bæklingsins Skógrækt í skipulagi sveitarfélaga. Nýja útgáfan tekur mið af þeim breytingum sem átt hafa sér stað vegna breytinga á lögum og reglugerðum sem snerta umhverfis- og skipulagsmál skógræktar.
Norska fyrirtækið Norsk trefiberisolering framleiðir einangrunarefni úr trjáviði sem sagt er geyma varma sex sinnum betur en steinull miðað við rúmmál. Mjúkar trefjarnar í timbrinu gefi líka betri hljóðeinangrun, timbureinangrunin geti hvorki brunnið né bráðnað og hún tempri raka tíu sinnum betur en önnur einangrun. Efnið sé mjög visthæft enda sé bundið umtalsvert magn af koltvísýringi í efninu öfugt við framleiðslu annars konar einangrunarefna sem hafi talsverða losun CO2 í för með sér.
Hörður G. Kristinsson, rannsóknarstjóri hjá Matís, hefur þegið boð um að sitja í evrópska lífhagkerfisráðinu, European Bioeconomy Panel. Hann situr í ráðinu fyrir hönd Matís og íslenska vísindasamfélagsins. Evrópska lífkhagkerfisráðið er vettvangur fyrir umræður um lifhagkerfið. Þar er átt við matvælaiðnað, fóðurframleiðslu, skógrækt, sjávarútveg, landbúnað, fiskeldi og lífefnaiðnað.