Skógrækt ríkisins og Héraðs- og Austurlandsskógar hafa ásamt fleirum fest kaup á nýjum kurlara sem gangsettur var í fyrsta sinn á föstudaginn var. Þetta nýja tæki gefur mun betra og jafnara kurl en gamall kurlari sem auk þess var úr sér genginn. Ennig sparast olía því nú verður aðeins ein vél í gangi við kurlunina í stað tveggja áður.
Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings samþykkti í síðustu viku að taka þátt í tilraunaverkefni fyrirtækisins Rootopiu sem felst í að gróðursetja öflugar birkiplöntur í lúpínubreiður. Rootopia ehf leggur til 450 eins metra háar birkiplöntur sem smitaðar hafa verið með svepprót en sveitarfélagið starfskraft við gróðursetningu.
Benjamín Örn Davíðsson skógfræðingur hefur verið ráðinn í starf aðstoðarskógarvarðar við embætti skógarvarðarins á Norðurlandi. Benjamín hefur undanfarin misseri starfað sem skógverktaki á Norðurlandi og kemur með dýrmæta reynslu og þekkingu í nýtt starf. Hann tekur til starfa í dag.
Í borginni Lappeenranta í Finnlandi hefur verið gangsett fyrsta verksmiðjan í heiminum sem framleiðir díselolíu úr trjáviði. Við framleiðsluna er notað endurnýjanlegt hráefni sem fellur til sem aukaafurð við pappírsframleiðslu. Vél sem gengur fyrir lífdíselolíu sem þessari losar um 80% minna af gróðurhúsalofti en vél sem gengur á hefðbundinni díselolíu.
Hvarvetna sem litið er á skóga jarðarkringlunnar má merkja breytingar sem rekja má til áhrifa frá umsvifum okkar mannanna. Viðnámsþróttur skóga við slíkum breytingum er þó ekki nægilega vel þekktur. Í nýju sérriti tímaritsins Journal of Ecology er sagt frá nokkrum nýjum rannsóknum sem ætlað er að varpa einhverju ljósi á þetta.