Undirritaður hefur verið samningur milli Skógræktar ríkisins, Garðyrkjufélags Íslands og Skógræktarfélags Íslands um frærækt og viðhaldskynbætur á birkiyrkinu 'Emblu'. Samningurinn tryggir að áfram verði unnið að kynbótum á íslensku birki og eykur möguleika trjáræktenda á að fá til ræktunar úrvalsbirki sem er bæði harðgert, beinvaxið og hraðvaxta. Skógrækt ríkisins sér um frærækt hins kynbætta birkis og miðlun fræsins til ræktenda.
Endurkortlagningu náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs á Íslandi er lokið og nú liggja meginniðurstöður hennar fyrir. Þessar niðurstöður voru kynntar Sigrúnu Magnúsdóttur, ráðherra umhverfismála í dag á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Í fyrsta sinn frá landnámi er nú staðfest að birkiskógar landsins séu að stækka. Þeir þekja nú hálft annað prósent landsins. Mest hafa birkiskógarnir breiðst út á Vestfjörðum og Suðurlandi.
Endurkortlagningu náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs á Íslandi er lokið og nú liggja helstu niðurstöður hennar fyrir. Þessar niðurstöður, sem marka tímamót í sögu íslenskra birkiskóga, verða kynntar ráðherra umhverfismála þriðjudaginn 3. febrúar kl. 13 á Rannsóknastöð skóg­ræktar, Mógilsá.
Fjöldi landeigenda tekur þátt í Hekluskógaverkefninu og hafa margir þeirra náð undraverðum árangri í ræktun birkiskóga á örfáum árum, gjarnan á afar rýru landi. Meðal þeirra eru Benedikt Benediktsson og fjölskylda sem eiga landspildu syðst í landi Svínhaga á Rangárvöllum, rétt ofan Bolholts. Þau hafa breytt eyðimörk í skóg á átta árum.
Á fyrsta fræðslufundi nýs árs í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri fjallar Katrín Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Sólskóga, um framleiðslu skógarplantna og veltir upp ýmsum áskorunum í uppeldi plantnanna en spáir líka í framtíðina, hvert stefna skuli í þessum efnum.