Sænskur úrvalsefniviður af stafafuru og skógarfuru hefur verið settur niður í tilraunareitum á nokkrum stöðum hringinn í kringum landið. Markmiðið með tilrauninni er að finna efnivið sem hentar í skógrækt hérlendis og ef það tekst getur sparast áratuga vinna í kynbótum fyrir timburskógrækt með furu.
Sitkagrenitré sem í nokkur ár hefur verið talið hæsta tré landsins er nú komið yfir 26 metra hæð. Tréð hefur vaxið hálfan metra í sumar. Tréð var mælt með nýjustu tækni í gær. Það hefur á 65 ára vaxtartíma sínum bundið 2,1 tonn af koltvísýringi.
Undanfarna daga hefur farið að bera á svart- og gulröndóttri lirfu ertuyglunnar á Suður- og Vesturlandi. Þetta er heldur seint miðað við fyrri ár og kann að vera að kuldinn í fyrrasumar hafi haft þessi áhrif. Nú er í gangi beitartilraun þar sem kannað er hvort ertuyglulirfur þrífast betur á einni fæðutegund en annarri.
Indverska stofnunin TERI og norska fyrirtækið Energigården hafa nú formlega stofnað alþjóðlegan sjóð um orkubú, The International Energy Farm Foundation, skammstafað EFIF. Sjóðurinn á að stuðla að því að smærri samfélög um allan heim nýti endurnýjanlega orku og stuðli þar með að minni notkun jarðefnaeldsneytis, allri heimsbyggðinni til heilla.
Skógar taka upp gróðurhúsalofttegundina koltvísýring úr andrúmsloftinu og geyma hann. Jafnvel þótt okkur Íslendingum þyki Noregur vera þakinn skógi gætu Norðmenn samt aukið mjög kolefnisbindingu skóga sinna með nýskógrækt. Um þetta er fjallað á vef norsku umhverfisstofnunarinnar, Miljødirektoratet. Fram kemur að árið 2011 hafi nettóbinding koltvísýrings í norskum skógum numið 32 milljónum tonna.