Helstu tíðindi úr umdæmi skógarvarðarins á Vesturlandi í sumar eru að nú er kominn út bæklingur um Stálpastaðaskóg með korti, gönguleiðum og öðrum upplýsingum. Gönguleið verður gerð í sumar í landi Litla-Skarðs í Norðurárdal fyrir styrk frá atvinnuvegaráðuneytinu til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Mjög blautt er nú í skógunum í Skorradal og víðar á Vesturlandi, svo mjög að erfitt er víða að fara um með vélar.
Aldrei hefur verið meiri uppskera af lerkifræi en í fyrra í fræhöllinni á Vöglum í Fnjóskadal þar sem frjóvgað er saman rússalerki og evrópulerki svo út kemur blendingsyrkið ‚Hrymur‘. Helmingi fræsins var dreift til gróðrarstöðva í vor en hinn helmingurinn geymdur til næsta árs. Því ætti talsvert að verða tiltækt af Hrym til gróðursetningar bæði 2015 og 2016.
Haustið 2013 heimsótti íslenskt skógræktarfólk regnskógana í Quinault-dalnum á vestanverðum Ólympíuskaga í Washington-ríki í Bandaríkjunum. Allt skógræktarfólk ætti einhvern tíma á ævinni að upplifa með berum augum og í návígi stórkostleg og risastór tré eins og þarna eru.
Skógardagur var haldinn á Vöglum í Fnjóskadal sunnudaginn 20. júlí í björtu og fallegu veðri og tæplega 20 stiga hita. Sýnd var grisjunarvél að störfum og vakti mikla athygli og hrifningu gesta sem voru nokkuð á annað hundrað talsins. Einnig var fræframleiðslan í fræhöllinni á Vöglum kynnt og eldiviðarframleiðslan.
Miklar breytingar eiga sér nú stað í gróðurfari landsins vegna hlýnunar loftslags. Fyrirhuguð nýskógrækt gæti uppfyllt fjórðung af skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum fram til 2020. Þetta kom fram í spjalli við Brynhildi Bjarnadóttur, doktor í skógvistfræði og lektor við Háskólann á Akureyri, í þættinum Sjónmáli á Rás 1.