Fyrsta námskeiðið í „skógarviðburða­stjórnun“ sem haldið er hérlendis fór fram í Hveragerði fyrir skömmu. Markmiðið með slíkum námskeiðum er að efla skógar­tengda fræðslu í landinu, hvetja til ýmissa viðburða í skógum landsins og fjölga þeim sem hafa þekkingu og færni til að skipu­leggja og halda slíka viðburði. Næstu námskeið verða haldin á Akureyri 27. og 28. apríl.
Áhugi virðist vera meðal skógræktarfólks, hönnuða og fleiri á aukinni nýtingu íslensks viðar til ýmiss konar hönnunar og framleiðslu innanlands. Þetta  segir Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður. Sýning hans í Heiðmörk, Skógarnytjar, var liður í dagskrá Hönnunarmars og sprottin af samstarfi hans við Skógræktina.
Skipulag skógræktar, réttindi landeigenda og fleiri hagsmunamál skógareigenda verða rædd á fundi sem Félag skógareigenda á Suðurlandi heldur í Gunnarsholti á Rangárvöllum laugardaginn 7. apríl. Auk skipulagsmálanna heldur landgræðslustjóri erindi um landgræðslu og loftslagsmál.
Réttur almennings til aðgangs að upplýsingum, þátttöku í ákvarðanatöku og réttlátrar málsmeðferðar verður til umfjöllunar á málþingi sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið stendur fyrir 5. apríl í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu í Reykjavík.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann lýsir því hvernig hann vill að ráðuneyti landsins fari fram með góðu fordæmi og vinni að kolefnishlutleysi sínu. Það verði bæði gert með því að draga úr losun og binda kolefni, svo sem með landgræðslu og skógrækt.